145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:50]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég er fulltrúi í utanríkismálanefnd og var það sömuleiðis á síðasta vetri þannig að ég hef fylgt þessari tillögu og umræðu um hana alveg frá upphafi í gegnum nefndina og tekið þátt í umræðum hér í þinginu bæði í vor og síðan aftur í haust. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með því að endurtaka þær ræður. (ÖS: Þær voru góðar.) Þær voru góðar og mér hefur verið sagt að þær hafi jafnvel verið skemmtilegar. Þær eru allar á vísum stað og aðgengilegar á hinum góða vef Alþingis þannig að fólk getur leitað í þær. Ég var tiltölulega nýkominn í utanríkismálanefnd og inn á Alþingi, þegar þetta mál rak á okkar fjörur, og áhugamaður um málaflokkinn, en viðurkenni fúslega að ég var ekki neitt sérstaklega inni í honum, ekki með djúpan skilning á honum.

Þó svo að mér hafi frá upphafi fundist þetta ólukkans tillaga og verið andsnúinn þeim breytingum sem var verið að leggja til hefur umræðan um tillöguna og meðferð nefndarinnar, sem hefur verið ítarleg eins og farið hefur verið yfir, dýpkað mjög skilning minn á málaflokknum, á eðli starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og líka skilning á því hvernig Þróunarsamvinnustofnunin rækir skyldur sínar og hvernig stofnunin og starfsemi hennar hefur þróast. Þessi innsýn, þessi lærdómur, sem sá þingmaður sem hér stendur hefur öðlast í umræðunni, hefur stóraukið álit mitt og trú á Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Þróunarsamvinnustofnun Íslands fer með mjög mikilvæg verkefni fyrir hönd Íslands. Mikilvæg verkefni í því að taka þátt í þessu alþjóðlega átaki, ef svo má kalla það, til að minnka ójöfnuð í heiminum, með því að lyfta upp þeim samfélögum sem eiga hvað erfiðast og þurfa mest á því að halda. Það er mjög verðugt verkefni. Það er ekki eintóm góðmennska af hendi hinna ríku að hjálpa hinum sem eru fátækari heldur, svo að ég leyfi mér að sletta, virðulegi forseti, „kommon sens“. Það er fullkomlega eðlilegt að við hugsum hvað sé heildinni fyrir bestu því að á endanum er það okkur líka fyrir bestu sem höfum það betra en aðrir.

Ég hef fengið innsýn í hvernig starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar hefur þróast, hvernig stofnunin hefur unnið sín störf og ég hef fyllst djúpri aðdáun á stofnuninni. Við höfum fengið raðir af gestum sem allir eru sammála um það; sömuleiðis þingmenn báðum megin úr málinu. Þróunarsamvinnustofnun Íslands er fyrirmyndarstofnun og hefur rækt starfsskyldur sínar mjög vel, farið vel með fjármagn og fengið mjög mikið út úr þeim verkefnum sem hún hefur staðið í.

En ég ætla ekki að endurtaka ræður mínar frá því fyrr en ítreka samt að í umræðunum og meðferð málsins hef ég, ef eitthvað er, styrkst í þeirri trú að það sé óráð að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og færa verkefnin inn í ráðuneytið. Ekki vegna þess að ég trúi að það sé slæmt fólk eða óvandvirkt sem starfar í ráðuneytinu heldur meira út frá þeirri hugsun annars vegar að ef eitthvað virkar mjög vel er betra að breyta því ekki eða breyta því hægt en að setja það í kollsteypur, en líka vegna þess að ég hef styrkst í þeirri trú að það skipti máli að svona stofnun sé sjálfstæð, bæði upp á sinn trúverðugleika en líka upp á einbeitinguna á verkefnunum. Ef maður setur fram aðalpunktana — og þá er ég kannski farinn að tala inn í breytingartillögur minni hlutans sem ég á þátt í — þá eru þeir á þann veg að passað sé upp á að halda verkefnum og aðaltilgangi Þróunarsamvinnustofnunar, sem er að halda utan um tvíhliða þróunarsamvinnu og beina tengingu á gólfið eða út til þeirra landa sem verið er að vinna með, skýrt skilgreindum og aðgreindum frá öðrum verkefnum. Í ljósi samtala minna og þess sem ég hef kynnt mér í þróunarsamvinnu annarra landa, nágrannalanda sem við miðum okkur oft við, og eru undir hjá DAC, þá er ég dálítið hræddur við það þegar þróunarsamvinnan fer að tengjast almennri utanríkisstefnu, jafnvel utanríkisviðskiptalegri stefnu landa. Því miður eru dæmi um að þar hafi orðið til grá svæði. Ég tel í það minnsta fulla ástæðu til að forðast það.

Ég hef sömuleiðis styrkst í virðingu fyrir því að þróunarsamvinna er sérstakt fag. Starfsfólk sem starfar við þróunarsamvinnu þarf að vita hvað það er að gera. Þar þarf ákveðna tegund af þekkingu og reynslu. Það er mikilvægt, sérstaklega á landi eins og Íslandi, með litlar stofnanir, að við höldum í þá sérþekkingu sem við þó eigum og missum hana ekki út. Þess vegna er ég vægast sagt dálítið hræddur við að starfsfólk í tvíhliða þróunarsamvinnu detti inn í almenna flutningsskyldu í utanríkisráðuneytinu. Þess vegna tel ég að það sáttaboð sem við í minni hlutanum leggjum fram með breytingartillögu okkar — sem leggur til að reyna að kvitta upp á tilgang ráðherrans, að því er virðist með tillögunni, að tengja ráðuneytið og ráðherra sjálfan betur við verkefnið með því að færa starfsemina inn í ráðuneytið og sömuleiðis að tryggja betur, þó svo ég sjái nú ekki að það hafi verið vandamál hingað til, eða hafi heyrt neinn halda því fram nema óljóst að svo hafi verið, að starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar hafi ekki verið í nógu nánum tengslum við utanríkisstefnu Íslands.

Engu að síður er í breytingartillögunni rétt fram sú sáttarhönd að starfsemin fari inn í ráðuneytið en í svokallaðri sérstakri ráðuneytisstofnun sem hefur ákveðna sérstöðu innan ráðuneytisins sem er fyrst og fremst fagleg, til að halda utan um faglega vinnu og til að halda utan um starfsfólkið þannig að flutningsskylda starfsfólksins sé innan málaflokksins en ekki yfir í önnur og óskyld verkefni utanríkisráðuneytisins.

Ég ætla ekki að eyða meiri tíma hér í umræðurnar enda erum við komin fram úr starfsáætlun Alþingis og farið að líða að jólum. Ég er viss um að almenningur hér úti, sem er að fylgjast með okkur, er kominn með hálfan hugann við jólaundirbúninginn frekar en Alþingi. Ég ætla ekki að endurtaka ræður mínar frá því fyrr. Breytingartillögu meiri hlutans, um samsetningu í þróunarsamvinnunefnd, tel ég vera til bóta. Þar er gert ráð fyrir að allir flokkar, hversu margir eða fáir sem þeir eru, sem eigi sæti á Alþingi eigi sæti í þessari nefnd. Ég held að það sé mikilvægt hreinlega til að tengja Alþingi betur við þennan málaflokk og við starfsemina. Það verður að segjast eins og er að utanríkismálanefnd er stór nefnd, hefur mörg stór verkefni á sínum höndum. Ég held að það skipti miklu máli að hafa sérvettvang þar sem einhver hópur þingmanna hefur nána aðkomu að þróunarsamvinnu. Þá skiptir máli að allir eigi þar sæti.

Rétt til að ljúka ræðu minni held ég að aðalatriðið sé að við erum ekki að reka stofnanir í þróunarsamvinnu stofnananna vegna. Við erum ekki að reka þróunarsamvinnu fyrir starfsfólkið eða stofnunina; ekki Íslands vegna. Við erum að reka Þróunarsamvinnustofnun og þróunarsamvinnu fyrst og fremst út frá því stóra alþjóðlega verkefni okkar að hjálpa til þegar við getum og þar sem við getum. Það er á grundvelli heimamanna eða þeirra landa sem verið er að veita aðstoð að skilgreina verkefni og kalla eftir því á hverju er þörf. Okkar hlutverk er að koma þá faglega í það verkefni. Ég hef eiginlega meiri áhyggjur af því og finnst óþægilegt, þó að ég sé ósáttur við þessar breytingar og þessa tillögu eins og ég hef ítrekað sagt, að við séum að ræða utanumhald um það hvernig við vinnum verkefnið í stað þess að ræða grundvöllinn í verkefninu. Það er viðmið Sameinuðu þjóðanna að hin þróuðu eða ríku lönd skuldbindi sig til að leggja 0,7% af þjóðarframleiðslu í alþjóðlega þróunarsamvinnu til að flýta einmitt því verkefni að minnka misskiptingu í heiminum og ná öllum í sama hlaup, ekki endilega á sama stað. Ísland hefur því miður aldrei náð að vera nálægt því að uppfylla þessi skilyrði frekar en flest lönd í heiminum. Því miður höfum við síðustu ár frekar verið að leka niður í þessu. Sú aukning sem maður getur mögulega séð í prómillum af framlögum Íslendinga kemur aðallega til vegna annarra verkefna, eins og í sambandi við flóttamannavandamálið og neyðaraðstoð og slíkt. Mér fyndist fara betur á því, og ég brýni hæstv. ráðherra til þess, að flýta því sem mest megi að við fáum þróunarsamvinnuáætlun sem skylt er að leggja fram. Auðvitað óska ég eftir og brýni ráðherra til að hún verði eins myndarleg og metnaðarfull og orðið getur. En mér finnst sú umræða í raun ákveðið grundvallaratriði. Ég sakna þeirrar umræðu.

Að öðru leyti er ég á nefndaráliti minni hlutans og tek heils hugar undir það; sömuleiðis á breytingartillögu minni hlutans. Hérna er mitt aðalinnlegg í 3. umr. um málið, að hvetja þingheim allan til að fylkja sér um breytingartillögur okkar til að málið verði skárra. Ég hef lokið máli mínu.