145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að það sé óskhyggja hjá hv. þingmanni að sá mikli fjöldi landsmanna sem hugsanlega er staddur heima hjá sér á þessari stundu sé límdur við sjónvarpstækin til að fylgjast með okkur. Ég efast um að mjög margir fórni jólaundirbúningi til að fylgjast með. Hins vegar gleður mig að hv. þingmaður hafi svona gott álit fyrir hönd okkar sem stofnunar.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði, þróunarsamvinnan af hálfu Íslendinga hefur verið að leka niður á allra síðustu árum, þ.e. frá því þessi ríkisstjórn tók við. Staðreyndin er sú að ef við hefðum staðið við þá áætlun sem var meðal annars samþykkt og gefið í af hálfu utanríkismálanefndar, meðal annars með atkvæði hæstv. utanríkisráðherra, værum við núna að greiða 4,7 milljörðum meira í þróunarsamvinnu. Það eru háar upphæðir. En þegar litið er til þess að við erum samkvæmt síðustu fréttum næstríkasta þjóð í Evrópu er það nú hugsanlega ekki nema það sem ætti að gerast til að við gætum haft þokkalegan frið í samviskunni. Okkur ber að láta af hendi rakna.

Virðulegi forseti. Sú tillaga sem hér liggur fyrir af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni er beinlínis sniðin til þess að reyna að búa til sátt. Það er alveg ljóst að sáttarvilji er hjá mörgum þingmönnum stjórnarliðsins. Miðað við fortíð hv. formanns utanríkismálanefndar og tal hennar um mikilvægi samtals og samkomulags og sátta í stjórnmálum hefði maður ætlað að hægt væri að ná sátt.

Hvað finnst hv. þingmanni um undirtektirnar? Hér erum við með útrétta sáttarhönd til að ná þverpólitískri sátt um magnað deilumál en það er ekki nokkur maður (Forseti hringir.) sem virðist hafa einn einasta áhuga á því. Er það rétt mat hjá mér að það sé eins og menn vilji frekar ófrið en frið í þessu máli?