145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:11]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kemst nú enginn með tærnar þar sem hv. þingmaður Össur Skarphéðinsson hefur hælana í því að mæra samþingmenn sína og útlista kosti þeirra. Ég vil alls ekki taka til mín það hól (Gripið fram í.) sem hann kom með hér. Hafi þessi þingmaður einhvern tíma verið djúpur er það nú kannski ekki síður vegna samvista sinna við hv. þm. Össur Skarphéðinsson á köflum. Sem ég þakka fyrir.

Ég vil samt sem áður ekki reyna að gerast neinn Nostradamus eða skilningsaðili. Eins og ég minntist á í ræðu minni hef ég ekki alveg almennilega skilið ástæðu tillögunnar og ekki heldur þrákelknina við að halda henni til streitu, sérstaklega eftir þá miklu vinnu í nefndinni undir stjórn formanna hennar, bæði í vor og núna í haust. En alla vega er ekki annað að skilja en að mikill vilji sé til að knýja málið óbreytt í gegn. Breytingartillaga minni hlutans þykir mér vera sáttatilboð sem kvittar upp á það sem ráðherra talar um í tillögunni sem ætlunarverk hennar. Satt að segja gengur breytingartillagan lengra en mér líður endilega vel með. Ég vil taka fram að þó svo að ég leggi fram breytingartillögu er þetta sáttatillaga. Ég vildi fegnastur og helst vilja að Þróunarsamvinnustofnun væri áfram sjálfstæð stofnun eins og verið hefur og hefði getað haldið áfram í sínu fyrirmyndarstarfi sem allir virðast sammála um. Ég leyfi mér því að hafa takmarkaðan skilning (Forseti hringir.) á þessari miklu breytingaþörf.