145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:14]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil segja að mér þykir það leitt að við skulum standa frammi fyrir niðurstöðu meiri hlutans, hann virðist ekki taka vel í þær breytingartillögur sem minni hlutinn leggur til og er það bagalegt.

Við erum búin að ræða þetta mál töluvert og höfum skiptar skoðanir á þessu fyrirkomulagi, þessu utanumhaldi. Auðvitað væri mun vænlegra að við værum að ræða hér um innihald en ekki utanumhald. En það skiptir máli hvernig utanumhaldið er. Við höfum áhyggjur af því að það verði ekki það sama eða það verði ekki sambærilegar áherslur verði stofnunin flutt eins og ráðherrann vill gera inn í ráðuneytið. Þess vegna leggjum við til breytingar sem snúast um að þetta verði stofnun inni í ráðuneytinu og auðvitað undir yfirstjórn ráðherra en haldi sjálfstæði sínu engu að síður. Það er auðvitað munurinn á tillögu okkar og ráðherrans því miðað við það sem ráðherrann leggur til þá missir stofnunin sem slík sjálfstæði sitt og það þykir okkur bagalegt. Það er líka bagalegt í ljósi þess að alla jafna hefur ríkt nokkuð góð sátt um þessi mál. Þrátt fyrir skiptar skoðanir þá hefur niðurstaðan fram til þessa að minnsta kosti verið sú að málinu hefur ekki verið hreyft þegar andstaðan hefur verið mikil eins og hún hefur verið nú en hæstv. ráðherra ætlar engu að síður að hafa hana að engu og það þykir mér miður.

Minni hlutinn bendir á í framhaldsnefndaráliti sínu að hægt sé að breyta fyrirkomulaginu með þeim hætti sem minni hlutinn leggur til, þ.e. að gera ÞSSÍ að stofnun inni í ráðuneytinu á grundvelli laga sem tóku gildi í júlí á þessu ári. Þegar ráðherra lagði málið fyrst fram var það ekki hægt þar sem lögin voru ekki til. En það er hægt núna og hefði verið hægt þegar málið fór til nefndar milli umræðna. Það er val ráðherrans að gera það ekki. Ég lýsi vonbrigðum með að það hafi verið niðurstaðan og skil eiginlega ekki alveg hvers vegna ráðherrann er feiminn við að koma til móts við hugmyndir okkar eða ræða þær. Það kemur fram í áliti minni hlutans þar sem farið er yfir írska módelið sem tillaga minni hlutans byggir á að það hafi verið einn af þeim valkostum sem Þórir Guðmundsson lagði fram í skýrslu sinni sem er jú undirliggjandi plagg fyrir ákvörðun ráðherrans. Írar hafa þróunarsamvinnu innan utanríkisráðuneytisins eins og ráðherrann vill gera hér en það er þó í sérstakri stofnun eins og við viljum leggja til.

Hér hefur flutningsskylda starfsmanna aðeins verið rædd og mér finnst áhugavert að bera aðeins niður þar því það hefur verið sagt að þessi farvegur gæti orðið einhver tröppugangur í diplómasíunni. Það er ekki hægt að taka það neitt út fyrir sviga, ég held að það geti alveg verið svo. En það er svo mikilvægt að halda utan um það fólk sem hefur aflað sér þessarar þekkingar og ég hef áhyggjur af því að það verði ekki með sama hætti og ef um væri að ræða sérstaka stofnun. Þrátt fyrir að í írska módelinu séu þróunarsérfræðingarnir flutningsskyldir er það þó fyrst og fremst í kringum þróunarmál og þeir geta farið fram á að vera ekki fluttir úr þróunargeiranum því að það er vissulega hægt að flytja fólk á milli starfa. En það er bagalegt ef það fer að vinna einhvers staðar allt annars staðar í utanríkisþjónustunni og staldrar jafnvel stutt við. Það kallar á að þekkingin verður ekki eins stabíl og hún annars gæti orðið og er mjög nauðsynlegt fyrir svona málaflokk.

Við verðum auðvitað að muna að hér er ekki verið að ræða um að þessi stofnun sé til fyrir það fólk sem þar vinnur akkúrat núna eða yfirleitt heldur ræðum við um hana vegna þeirra verkefna sem hún sinnir. Það er það sem er svo mikilvægt, þekkingin sem skapast vegna þeirra verkefna sem Þróunarsamvinnustofnun hefur sinnt. Við höfum verið að byggja upp gríðarlega mikla þekkingu hjá okkar starfsfólki og það er hætt við því að þegar stofnunin fer undir ráðuneytið geti orðið meiri hreyfing á því. Þess vegna er bagalegt að hæstv. ráðherra og nefndin hafi ekki látið skoða ítarlega þann möguleika sem hér er lagður til og tryggja að starfsmennirnir geti, hvað á ég að segja, verið lengi í þjónustunni en ekki stutt því að hugmyndafræði utanríkisráðuneytisins byggist á því að starfsmenn eigi að kynnast sem flestum hliðum utanríkismálanna og þá er við því að búast að sérhæfingin fari dvínandi, eða að þeim fækki sem sinna þessari starfsemi að minnsta kosti.

Ég á ekki beinlínis mikið ósagt í þessu máli en ég vil þó segja um sjálfsmynd málaflokksins að ég hefði viljað styrkja hana frekar en að draga tennurnar úr málaflokknum eins og mér finnst verið að gera hér að miklu leyti. Ég hef líka horft mikið til þess og finnst það skipta máli að Ríkisendurskoðun hefur varað við þessu, stofnun sem við treystum á að veiti starfsemi Alþingis og stofnunum Alþingis óháð aðhald. Ég tek það mjög alvarlega þegar Ríkisendurskoðun varar við breytingunni.

Ég hef líka nefnt ógagnsæi ráðuneyta og þar eru fordæmi fyrir hendi. Það var nú bara síðast verið að kvarta yfir því í fjárlagaumræðunni varðandi safnliði, fólk vissi ekkert hvert það færi, það væri meira ógagnsæi og erfiðara aðgengi að upplýsingum. Utanríkisráðuneytið er ekkert öðruvísi hvað það varðar. Við höfum tekið dæmi um bæði friðargæsluna og skóla Sameinuðu þjóðanna sem ekki hafa verið mjög gagnsæ verkefni, það verður að segjast eins og er. Þrátt fyrir að verið sé að gera einhverja úttekt á skóla Sameinuðu þjóðanna að mér skilst, þá er það jú eftir allan þennan tíma. Þegar við erum með stofnun í höndunum sem hefur skilað mjög góðum faglegum úttektum, alltaf fengið plús í kladdann fyrir allt sitt starf, þá finnst mér erfitt að segja að þetta sé gert á grundvelli mikillar hagræðingar. Eflaust er hagræðingin einhver og hún gæti náðst með því að flytja ÞSSÍ sem stofnun inn í ráðuneytið eins og við leggjum til.

Við erum fyrst og fremst að hugsa um að þróunarsamvinnan takist vel á vettvangi. Hún tekur tíma, það þarf undirbúning og framkvæmd og allt það. Við erum að tala um fólk í framandi umhverfi sem er viðtakendur þessarar aðstoðar og við erum að hluta til að tala þeirra röddu, ég tel mig að minnsta kosti að vera að reyna að gera það vegna þess að ég tel málum betur fyrir komið með þeim hætti sem er í dag en að stofnunin fari undir ráðuneytið. Ég sé ekki beinlínis hagræðinguna fyrir fólkið og verkefnin sem við vinnum að í samstarfslöndunum með því fyrirkomulagi sem lagt er til af hálfu ráðherrans. Þetta eru langtímaverkefni alla jafna og það þarf að vera skilvirkni og ráðuneytin eru ekki þekkt fyrir að vera mjög spontant, virðulegi forseti, ef ég má nota það orð, eða bregðast hratt við eins og gjarnan þarf að gerast í þessum málaflokki. Ég á ekki von á því að svo verði. Mér finnst því ekki hafa verið færð nægjanleg rök fyrir þessari breytingu en stend frammi fyrir því að hún verði að veruleika. Mér þykir miður að ráðherrann ætli ekki einu sinni að velta hinu fyrir sér, þ.e. að hafa þetta sem stofnun inni í ráðuneytinu.

Ég hef heldur ekki skilið þennan asa að geta ekki beðið eftir niðurstöðu DAC, að hverju þetta þarf að gerast akkúrat núna. Það hefur ekki komið fram að það sé einhver tími sem skipti máli, eitthvað renni út eða eitthvað gerist ef frumvarpið verður ekki að lögum núna eða áður en skýrsla DAC kemur út. Það er ekkert sem hefur komið fram sem styður það. Þess vegna þykir mér í rauninni algjör óþarfi að ræða þessi mál akkúrat núna því það er auðvitað töluverð breyting að sameina ráðuneyti eða sameina fagstofnun ráðuneyti. Þetta er eina stofnun þessa ráðuneytis og maður hefur frekar á tilfinningunni að verið sé að styrkja utanríkisráðuneytið frekar en þróunarmálin. Það hefur líka komið fram að við getum tapað góðu fólki sem hefur sinnt þessum málum.

Hér hefur mikið verið rætt um tiltekna ráðgjafa, mestmegnis tvo, sem hafa gert skýrslur og fólk hefur togast á um það sem er í sjálfu sér allt í lagi. En það eru miklu fleiri sem hafa haft á þessu skoðanir og taka ætti mark á, fólk sem ég tel vert að hlusta á eins og prófessor Jónína Einarsdóttir sem er okkar helsti fræðimaður á sviði þróunarfræða. Hún leggst alfarið gegn þessu og kemst að sömu niðurstöðu og ráðherrar sem hafa setið á undan þeim sem nú situr, að þróunarsamvinnu sé betur fyrir komið með þeim hætti sem er í dag en inni í ráðuneytinu. Ég verð að taka undir það,

Það er vissulega ein breyting sem meiri hluti nefndarinnar leggur til og minni hlutinn tekur undir, þ.e. að hver þingflokkur sem eigi sæti á Alþingi skuli tilnefna fulltrúa í þróunarsamvinnunefnd. Það er auðvitað gott, en það er afskaplega lítið komið til móts við hugmyndir minni hlutans sem raktar hafa verið og vel rökstuddar að ég tel. Rökstuðningur ráðuneytisins er haldlítill og mér þykir rökstuðningur þess fólks sem starfar í þessu og hefur lagt fram athugasemdir miklu dýpri og faglegri en svona „af því bara“ og „ég má þetta og ég get þetta“ rökstuðningur, ég hef svolítið á tilfinningunni að það sé þannig.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég er bara svolítið sorgmædd yfir þessu. Mér þykir leiðinlegt að við stöndum frammi fyrir því að þetta sé að verða að veruleika í staðinn fyrir að við eflum þróunarstarf og innviði þróunarsamvinnunnar. Ég vildi að ég hefði verið að afgreiða í fjárlögum í gær aukið framlag til þróunarsamvinnu en ekki sama framlag og er á yfirstandandi ári. En það er ekki gert og við erum langt undir markmiðum Sameinuðu þjóðanna hvað það varðar. Ég vildi fremur vera að ræða verkefnin sem ég þekki aðeins til sem unnin eru á vettvangi af hálfu starfsfólks Þróunarsamvinnustofnunar og starfsnema hennar. Ég er ekki viss um að allir þeir sem greiða frumvarpinu atkvæði sitt á þingi séu meðvitaðir um það hvers konar starfsemi fer fram hjá Þróunarsamvinnustofnun og hvað það er sem gæti gerst og gæti breyst. Ég hef miklar efasemdir um það.