145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:28]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vildi ég nú segja það — af því að ég nefndi það í andsvari áðan, að líkast til væru engir að horfa á þessa umræðu — að síðan ég gerði það hafa mér borist boð bæði frá Breiðdalsvík, Akureyri, Ísafirði og Reykjavík sem sanna hið gagnstæða. Þannig að bersýnilega eru fleiri sem enn halda sig frá jólaundirbúningi og eru hér við sjónvarpið til að fylgjast með okkur en ég hugði.

Herra forseti. Ég held að þetta mál, burt séð frá kjarna þess sem viðfangsefnis, spegli svolítið slæma þróun hér á Alþingi Íslendinga. Við höfum lagt fram sáttatillögu í málinu og hún byggist meðal annars á því að það hefur komið skýrt fram að stuðningurinn af hálfu stjórnarliða er nánast enginn.

Hv. formaður utanríkismálanefndar heldur auðvitað sinn skyldustíl sem hún þarf að gera sem framsögumaður stjórnarliðsins. Síðan hefur komið hér einn þingmaður annar og haldið ræðu en það eru allar ræðurnar sem haldnar hafa verið samanlagt. Í reynd einungis ein ræða sem stjórnarliði hefur haldið ef frá eru talin stöku andsvör og framsögur fyrir nefndarálitum.

Þetta rennir stoðum undir þá skoðun mína að við málið er ákaflega lítill stuðningur og enginn veigamikill, enginn af sannfæringu. Þess þá heldur hefði átt að vera unnt, þegar deilurnar eru svona miklar, að ná einhvers konar sátt. En það er ekki gert.

Nú tel ég að það séu öll föng til þess að hægt væri að ná samtali við hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur vegna þess að hún hefur svo oft sagt að hún vilji önnur vinnubrögð í stjórnmálunum. En þegar henni gefst kostur á að sýna það í framkvæmd þá gerir hún það ekki. Af hverju? Vegna þess að við sjáum hér þróun sem hnígur að því sem var verst hér á árum fyrri. Ráðherraræðið. Þar sem framkvæmdarvaldið þröngvar sínum skoðunum fram og þingmenn verða bara að taka því.

Er hv. þingmaður sammála mér um þetta?