145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það yrði þó stofnun sem yrði undir beinu boðvaldi hæstv. ráðherra, þ.e. boðleiðirnar væru þá frá hæstv. ráðherra til ráðuneytisstjóra, til yfirmanns stofnunarinnar. Það er skýrt tekið fram að einnig er um að ræða fjárstjórnarvald.

Ráðherrann hefur öll föng til að ráða því sem hann vill í reynd og þarna er að minnsta kosti tekið á öllum þeim þáttum sem ráðherrann sagði að hann vildi sjá á annan veg. Hann gat að vísu ekki fundið nein rök fyrir staðhæfingum sínum um tvíverknað og taktleysi gagnvart utanríkisstefnunni o.s.frv. Þau komu aldrei fram.

Í öllu falli væri girt fyrir að slíkt gæti gerst með þessari breytingu. Samt vill hæstv. stjórnarlið alls ekki taka þátt í því að reyna að finna þarna einhvers konar lausn. Maður veltir því fyrir sér af hverju það er og eina skýringin sem ég finn á því er sú að við erum aftur komin í þetta gamla far þar sem að löggjafinn var beygður undir framkvæmdarvaldið, nánast þræll þess í mörgum málum.

Ég er ekki að halda því fram að ástandið sé orðið eins svart og á svartasta skeiði fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins þegar þingheimur varð að sitja og standa eins og þáverandi forsætisráðherra vildi. En þetta hnígur í sömu átt og ég finn enga aðra skýringu á því. Mér finnst það vitaskuld miður, í ljósi þess að ég taldi að jarðvegur væri fyrir því í nýrri forustu utanríkismálanefndar, miðað við allar þær yfirlýsingar sem frá þeim hv. þingmanni hafa gengið síðustu tíu árin, held ég að ég megi segja. Ég á safn tilvitnana í hv. þingmann þar sem það kemur fram allt frá því að hún tók að sér að vera forseti borgarstjórnar. (Forseti hringir.)

En það er enginn vilji til þess og ekki er hægt að komast að annarri niðurstöðu en að það sé bernsk þrá hæstv. ráðherra að ráða öllu í þessu máli. Ég skil það vel því að þetta er eina málið sem hæstv. ráðherra hefur einhverju fengið ráðið um.