145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:45]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já ég get tekið undir það. Ég held að þetta sé einmitt svona: Hæstv. ráðherra er búinn að bíta þetta í sig og ætlar bara að klára málið með þeim hætti sem hann er búinn að ákveða.

Eins og fram kom í samskiptum mínum og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar áðan varðandi þessi mál er það þessi þvergirðingsháttur sem veldur því að ég hef áhyggjur af því að framkvæmdarvaldið sé að valta yfir þingið.

Þess vegna þykir mér það frekar bagalegt að ekki sé einu sinni rætt eða skoðað almennilega að koma til móts við tillögu minni hlutans af því að hún uppfyllir drauma ráðherrans um að fá stofnunina inn í ráðuneytið til sín. En eitthvað annað býr að baki fyrst það er ekki hægt. Fyrst hann hafnar faglegri stofnun í ráðuneyti sínu vekur það auðvitað upp spurningar. Það er erfiðara þegar stofnunin er komin inn í ráðuneytið, að sinna innra aðhaldi við ákvarðanatöku og að styrkja faglega stefnumótun, eins og er hægt að gera með því að hafa þetta sem sérstaka stofnun. Hafa verið færð fram rök fyrir því fyrr í umræðunni um málið.

Það er það sem Ríkisendurskoðun hefur verið að benda á, þ.e. að það er allt annað að vera með eftirlit utan ráðuneyta og það hefur ekki tíðkast að verkefnum sé fylgt eftir með þeim hætti í ráðuneytunum. Skipuleg stefnumótun er lykillinn að framförum þróunarsamvinnu og við eigum að einbeita okkur að fjárframlögum (Forseti hringir.) til hennar, auka þau og styrkja innra starfið en ekki utanumhaldið sem við ræðum hér. Það á að fá að vera eins og það er.