145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:22]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já. Hér kemur fram í máli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands, staðfesting á því sem ég hef haldið fram, að þarna er ýmis dulbúinn kostnaður, falinn, allt að því leyndur, bara út af slugsvinnubrögðum. Hann er ekki metinn, sennilega til þess að fá fleiri til liðs við málið. En í nefndarvinnu koma hlutirnir fram. Því verður ekki móti mælt að við þessa leið kann að vakna biðlaunaréttur, jafnvel þannig að starfsmenn taki ekki störf. Þá getur hann orðið meiri. Það er svolítið misjafnt eftir því hvenær starfsmenn eru ráðnir og við hvaða lög er miðað og í hvaða stéttarfélagi viðkomandi er. Því til staðfestu vil ég taka dæmi sem kemur af því að hæstv. forsætisráðherra hefur sennilega fyrir augunum á sér alla daga þegar hann gengur út úr Stjórnarráðinu gamlan hafnargarð frá 1928 sem reistur var hér í Reykjavíkurborg. Forsætisráðherra, sem er mjög annt um gamla hluti, Ísland allt, beitti sér fyrir því að þessi garður yrði friðaður. Ég tek undir það að það á að sjálfsögðu ekki að skemma svona hluti. Þarna er verið að byggja hótel og spurning er hvort ekki hefði mátt breyta teikningum og hafa garðinn inni á reitnum.

En nú er komið fram samkvæmt frétt á Vísi að kostnaður við að færa hafnargarðana er um 500 millj. kr., segi og skrifa 500 millj. kr. Minjastofnun er að vinna, í samvinnu við verktakafyrirtæki og verkfræðistofur, við að flytja þessa garða, og talið er að búið verði að flytja hafnargarðinn innan eins mánaðar, stein fyrir stein. (Forseti hringir.) Það verður nú engin söfnun á Karolina Fund eða eitthvað svoleiðis fyrir þessum 500 millj. kr. Minjastofnun segir beinlínis: Við munum sækja það til ríkisins, til forsætisráðherra, (Forseti hringir.) að fá þessar 500 millj. kr. fyrir að flytja garðinn í geymslu og setja svo upp aftur. (Forseti hringir.) Er þetta ekki táknrænt dæmi fyrir slugsvinnubrögð?