145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Nú þegar segja má að þessi umræða sé að komast á flug og menn séu að tala sig heita þá er rétt að fara yfir meginatriði þessa máls. Þau eru þessi: Við erum stödd í 3. umr. og öll þessi umræða hefur snúist um eitt, hún hefur snúist um þá tillögu sem stjórnarandstaðan hefur sameiginlega lagt fram um sættir í þessu máli.

Þróunarsamvinna er viðkvæmur og flókinn málaflokkur. Viðkvæmur, segi ég, af því að við vitum að deilt er um þróunarsamvinnu, ekki bara í þinginu, heldur eru margir sem telja að hún sé hugsanlega ekki það þarfasta sem Íslendingar eyði fjármunum í. Við höfum hins vegar litið svo á að okkur sem ríkri þjóð — ein auðugasta þjóð í heimi, næstríkasta þjóð í Evrópu miðað við nýjar upplýsingar — beri siðferðisleg skylda til að reiða af höndum fram miðað við efni og okkar efni eru mikil. Nú blasir við að eftir að fjórar ríkisstjórnir hafa sameiginlega unnið að því að greiða úr þeim miklu flækjum sem hið ófyrirsjáanlega hrun leiddi yfir þjóðina hefur í fimm ár samfellt verið meiri hagvöxtur á Íslandi en í nokkru öðru ríki Evrópu að jafnaði. Og við þær aðstæður, þegar við erum að sigla nokkuð góðum skriði upp úr efnahagshruninu, er það skylda okkar að standa okkur vel gagnvart þróunarsamvinnu. Það er þess vegna sem það er svo mikilvægt að sátt ríki um þessi mál. Við sjáum það í nálægum löndum, eins og til dæmis á Stóra-Bretlandi, að þar leggja menn sig í líma við að ná sátt um þetta málefni.

Forsætisráðherra Breta, íhaldsmaðurinn David Cameron, sem hér var nýlega í heimsókn, sýndi heldur betur skörungsskap og meiri framsýni og meiri reisn en íslensk stjórnvöld. Í miðri kreppu gaf íhaldsforinginn í Bretlandi í og setti meiri peninga í þróunarsamvinnu en nokkru sinni fyrr. Honum og þeirri ríkisstjórn til hróss segi ég það að einmitt þegar Bretar stóðu hvað höllustum fæti eftir hrunið þá réðust þeir í gríðarlega bólusetningarherferð í Afríku sem að öllum líkindum bjargaði tugum þúsunda barnslífa. Þetta er rétta viðhorfið. Bretar eru fyrir löngu búnir að ná því takmarki sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett þjóðum sínum, að greiða af vergri landsframleiðslu 0,7% í málaflokkinn. Við erum ekki einu sinni hálfdrættingar í því. Við náum ekki einu sinni 1/3 af því sem Bretar ná hvað landsframleiðslu varðar. Undir þessari ríkisstjórn hefur orðið árleg afturför.

Í ár erum við til dæmis að greiða minna, lægra hlutfall, af landsframleiðslu en í fyrra. Í ár er það 0,21% samkvæmt nýbirtum upplýsingum Þróunarsamvinnustofnunar, var í fyrra 0,23%. Hefði átt að vera 0,40% miðað við það sem hæstv. utanríkisráðherra greiddi atkvæði með, þegar utanríkismálanefnd ákvað að framhlaða áætlun sem ég lagði á sínum tíma fyrir þingið. Í dag, miðað við áætlunina sem leiðtogi Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, sagði að hann teldi að væri raunhæf, þegar hann greiddi henni atkvæði sitt árið 2011, ættum við að vera að greiða 4,7 milljörðum meira. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga til að setja hlutina í samhengi.

Við ræðum hér um það hvernig á að halda utan um þá miklu fjármuni sem fara til þróunarsamvinnu. Það skiptir mjög miklu máli að það sé gert með þeim hætti að um það ríki þverpólitísk sátt. Það hefur verið aðall okkar í stjórnarandstöðunni. Það hefur verið hið sama markmið sem hver einasti utanríkisráðherra frá hinum glæsilega leiðtoga Framsóknarflokksins Ólafi Jóhannessyni til þessa ráðherra sem er sá eini sem sker sig úr; allir þeir sem á undan komu hafa verið fullir af vilja og kappi til að halda þverpólitískri sátt. Svo kemur þessi hæstvirti ráðherra með mál sem mætir gríðarlegri andstöðu. Þegar málið dagar uppi á þingi í fyrra hafði hæstv. ráðherra ráðrúm til að hugsa sig um, ráðrúm til að leita eftir samstöðu við stjórnarandstöðuna, skoða málið hugsanlega upp á nýtt og athuga hvort hægt væri að leggja það fram með einhverjum öðrum hætti sem gerði að verkum að líklegra væri að ná þverpólitískri sátt. Það var engin tilraun gerð til þess. Í sjálfu sér er það líka stórskrýtið að eina málið sem hæstv. ráðherra leggur fram sem eitthvað kveður að, gerir það að máli númer eitt, er þetta. Allt hitt eru mál sem varða allt það sem hann varast vildi, þ.e. auknar innleiðingar á ESB-löggjöf, það eru EES-mál. Þetta er mál númer eitt hjá hæstv. ráðherra, sett í forgang og þetta er eina málið sem hann er í reynd að leggja hér fram og telur að marki einhver spor.

Í því ljósi get ég út af fyrir sig vel skilið það að hæstv. ráðherra sé kappsmál að ná því fram vegna þess að öll önnur stórmál hafa lekið niður í höndum hans. Var þetta ekki ráðherrann sem ætlaði að slíta aðildarumsókn að ESB? Hvernig reiddi því máli af? Hver er afstaða ESB sjálfs til þess? Jú, þeir sendu honum fingurinn, storka honum fyrir hvað, minna en tveimur vikum, þegar þeir segja blákalt við blaðamenn að Íslendingar geti hvenær sem þeir vilja, bak næstu kosningum, sótt um eins og ekkert hafi í skorist, haldið áfram, tekið upp umsóknina. Með öðrum orðum hefur ekkert gerst í því máli sem hægt er að segja að hafi kallað fram einhverjar meginbreytingar. Málið er sannarlega á ís, á þeim sama ís og það var lagt á í tíð fyrri ríkisstjórnar. Það hefur ekkert breyst.

Tökum annað mál sem hæstv. ráðherra ætlaði að gera hér að stórmáli líka, það var að halda fram stefnu fyrri ríkisstjórnar sem fyrst ríkisstjórna setti norðurslóðir með formlegum hætti á dagskrá. Hvar eru norðurslóðir í dag? Það heyrir enginn af þeim nema af því að okkar ágæti forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, er stöðugt með þau á dagskrá. Forseti lýðveldisins setti á fund mestu ráðstefnu um þau mál sem haldin hefur verið, bauð mörgum þjóðarleiðtogum þar að borðinu. Þegar hann bauð utanríkismálanefnd að sitja þá ráðstefnu og hlýða á setningarræðu sína var það samkvæmt sérstakri skipan hæstv. utanríkisráðherra að framhandleggur hans í nefndinni kom með handrit úr utanríkisráðuneytinu þar sem bókstaflega var fyrirskipað að ljúka máli fyrir tiltekinn tíma. Það var smekkur þeirra sem þar um réðu að setja fundinn, sennilega forseta lýðveldisins til háðungar, á sama tíma og hann hélt ræðu sína. Þetta var framlag Framsóknarflokksins og hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur til norðurslóða á þessu kjörtímabili. (Gripið fram í.) Það mál er týnt. En sem betur fer það í góðum höndum forseta lýðveldisins. Svona er mál eftir mál sem hæstv. utanríkisráðherra hugðist í (Gripið fram í.) upphafi kjörtímabilsins bera hér fram, þau eru öll týnd, þau eru gufuð upp.

Hvernig fór með hið bætta samband við Bandaríkin? Var það ekki eitt sem átti líka að gera? Hvernig fór það? Jú, það hafa aldrei verið meiri hótanir af hálfu Bandaríkjamanna gagnvart Íslandi út af hvalveiðum en einmitt núna. Hingað kemur ekki nokkur maður nema einhverjir kontóristar í heimsókn og svo hefur það ekki verið. Muna menn þegar hæstv. ráðherra sagði hér í upphafi að hann ætlaði að sýna allt önnur vinnubrögð og viðmót gagnvart Bandaríkjunum og fann eðlilega að því að fyrri ríkisstjórn tókst ekki að fá nokkurn ráðherra Bandaríkjanna hingað í heimsókn? Hvað hefur gerst síðan? Jú, hann hefur fengið einhverja strompa úr ráðuneytum, en Bandaríkjamenn vilja ekki tala við hæstv. ráðherra. Við þessar aðstæður er það helsta bjargræði og haldreipi hæstv. ráðherra að leggja fram tillögu um að slá af þá stofnun sem sennilega má segja að hafi aukið hróður Íslands í útlöndum mest. Er það verk og hlutverk utanríkisráðherra að slá í einu höggi til jarðar þá stofnun sem mest og best hefur borið hróður Íslands um heila meginálfu? Herra guð, segi ég bara, það eru aldeilis verkin sem liggja eftir þessa ríkisstjórn í utanríkismálum. Ef ekki væri fyrir forseta lýðveldisins þá hygg ég að það mætti segja að hlutur Íslands í utanríkismálum væri ansi léttvægur í dag.

En því segi ég þetta sem var það sem olli því að ég taldi að ástæða væri til að spyrna við fótum þegar varaformaður utanríkismálanefndar, hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir, sýndi hæstv. forseta lýðveldisins þá vanvirðingu að koma í veg fyrir að utanríkismálanefnd gæti sýnt forsetanum þann sóma að vera við setningarræðu hans við einhverja mikilvægustu ráðstefnu sem haldin hefur verið um norðurslóðir hér á landi og sem í reynd bjargaði heiðri Íslands, vegna þess að norðurslóðir eru gleymt hugtak af hálfu ríkisstjórnar Íslands.

Aðeins til að svara því sem sami hv. þingmaður sagði hér áðan, að það hefði verið með vélabrögðum sem við hefðum knúið hana til þess að fá til fundar við okkur þrjá fulltrúa sem höfðu sent inn álit og við höfðum ekki fengið að ræða við. Ég segi það enn og aftur: Hún kallar það vélabrögð, en ég tel að þar hafi ég, með því að notfæra mér rétt í þingsköpum, bjargað þeim tætlum sem eftir voru af heiðri hennar sem varaformanns í nefndinni. Því hefði það ekki gerst hefði það orðið að stórkostlegu máli hér í þingsölum sem hefði dregið langan slóða á eftir sér. Það er mikilvægt að þetta komi fram, herra forseti.

Meginatriði þessarar umræðu hefur verið tillaga okkar um sátt. Hún gengur út á það að í staðinn fyrir að Þróunarsamvinnustofnun sé slegin af verði hún, í anda laga sem samþykkt voru og flutt af hæstv. ríkisstjórn á síðasta vori og tóku gildi í júlí, færð í heilu lagi inn í ráðuneytið og hún verði þar ráðuneytisstofnun í anda þeirra laga eða eins og lýst er í greinargerð með frumvarpinu. Það vill svo til að það var fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins sem lagði grunn að þessu árið 2000 og bókstaflega lýsti tilganginum í því að skapa rými fyrir ráðuneytisstofnun innan íslensks réttar, innan laga um Stjórnarráð Íslands, til að svara aðstæðum eins og þessum. En stjórnsýslulegt flaustur hæstv. ráðherra og eftirtektarleysi á umhverfi sínu, eins það birtist í þessu mál, var slíkt að hæstv. ráðherra vissi bersýnilega ekki að hann sjálfur hafði samþykkt lög sem hann segir að ríkisstjórn hafi lagt fram sem gerði ráð fyrir því að svona vinnubrögð yrðu viðhöfð til þess að svara aðstæðum eins og þessum þegar menn vilja flytja verkefni inn í ráðuneytið. Hæstv. ráðherra virðist einfaldlega ekki hafa vitað af því. Það er vel hægt að fyrirgefa honum það, en það er hins vera erfitt að sjá í gegnum fingur sér við hæstv. ráðherra þegar hann kemur og beinlínis bítur og slær á þær hendur sem eru réttar honum til að reyna að ná sáttum.

Það kom glögglega fram í ræðu og andsvari hæstv. ráðherra hér fyrr í dag að hann hefur ekki einu sinni lesið heima. Hann þekkti hvorki haus né sporð á þeim málum sem við vorum hér að tala um. Hann virtist í fyrsta lagi ekki vita að skýrslan, sem hann sagðist hafa byggt sitt eigið frumvarp á, gerir ráð fyrir fyrirkomulagi af þessu tagi. Það kemur skýrt fram í skýrslu Þóris Guðmundssonar, sem ráðherra segir sjálfur að hann byggi frumvarpið á. Í öðru lagi kom það skýrt fram að hann vissi ekki einu sinni hvað lögin sem við samþykktum hér um Stjórnarráð Íslands í sumar fælu í sér. Í þriðja lagi þá kom það líka fram hjá hæstv. ráðherra að hann hefur svo vélrænt viðhorf til embættismannaveldisins og til laganna að hann skilur ekki að löggjafinn er framkvæmdarvaldinu æðri. Hann hélt því fram að ekki væri hægt að fara þessa leið vegna þess að stjórnarráðslögin gerðu ráð fyrir því að það væri ákvörðun ráðherra. Herra trúr. Er það ekki Alþingi Íslendinga sem ræður því sjálft hvort það gefur hæstv. ráðherra fyrirmæli um að búa til stofnun af þessu tagi innan vébanda ráðuneytisins í anda tiltekinna laga? Eða veit hæstv. ráðherra heldur ekki af þeim möguleika að hægt væri að setja pósitíft ákvæði (Forseti hringir.) inn í lögin um Þróunarsamvinnustofnun, að svona skyldi fyrirkomulag hennar vera — og það eru sérlög sem taka hinum fram.