145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:48]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get að mörgu leyti tekið undir það sem fram kom í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem þekkir mjög vel til þessa málaflokks, ekki aðeins hefur hann gegnt stöðu utanríkisráðherra og fylgst með þróunarvinnunni frá þeim sjónarhóli heldur hefur hann lengi verið mikill áhugamaður um þetta málefni sem ég held að skýri þann hita sem hefur einkennt málflutning hans. Honum er ekki sama um þetta starf. Honum er ekki sama um þessa stofnun og það ber að virða.

Ég tek einnig undir að það á ekki, eins og hann orðar það og vitnar í þingmann Sjálfstæðisflokksins, að skakast í stofnunum sem hafa staðið sig vel. Það er alveg rétt. Ég er algerlega sammála því. Einhvern tíma var það orðað svo af hálfu Philips Boyers, sem var aðalframkvæmdastjóri heimssambands símamanna og kom hingað til að ræða um einkavæðingu í þeim geira, að það ætti ekki að reyna að gera við það sem ekki væri bilað. Það er náttúrlega vinnureglan sem við eigum að hafa sem útgangspunkt okkar.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég get alveg tekið undir að það er eðlilegt að meta málin í ljósi reynslunnar, en því er ekki lokið. Atkvæðagreiðsla hefur ekki farið fram um málið. Við þekkjum vilja margra innan stjórnarmeirihlutans, sem eru málinu í hjarta sínu ósammála og vilja ekki að það nái fram að ganga. Þar til endanleg atkvæðagreiðsla hefur farið fram um málið skulum við ekki gefa okkur neina niðurstöðu.