145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:11]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég trúi á hið góða í manninum. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir spurði mig snemma í þessari umræðu í vetur hvort ég teldi einhvern möguleika á því að fyrir hæstv. ráðherra vekti, með þessari breytingu, að nota hugsanlega þá miklu fjármuni sem er að finna innan þróunarsamvinnugeirans til að koma fram öðrum hagsmunum Íslands. Þá svaraði ég henni að ég teldi að ekkert slíkt vekti fyrir hæstv. ráðherra. Það væri enginn möguleiki á því að það væri eitt af því sem að baki lægi. Hv. þingmaður spurði mig þá hvort ekki væru dæmi um það að nábýli þróunarsamvinnu og annarra pólitískra þátta í einu og sama ráðuneytinu hefði haft óheppileg áhrif. Ég svaraði því til að vissulega þekkti ég dæmi þess og vísaði reyndar til þeirra fyrir talsvert löngu síðan í öðrum löndum en taldi að þetta væri praxís sem væri búið að leggja af.

Ég fór hins vegar heim til mín og rannsakaði málið og kannaði betur og kom aftur síðar í umræðunni og sagði við hv. þingmann að hugsanlega hefði ég haft rangt fyrir mér. Ég benti á nýlegt dæmi sem var Holland þar sem þróunarsamvinna og utanríkisviðskipti voru fyrir fimm árum sett í sama ráðuneyti. Það er alveg klárt að það hafði veruleg áhrif þegar fram í sótti og var nýlega gagnrýnt mjög harkalega í skýrslu.

Því nefni ég þetta hér að mig rak í rogastans þegar hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir sagði í ræðu sinni í dag að eitt af markmiðum með þessari breytingu væri að samhæfa þróunarsamvinnu við önnur verkefni. Ég spurði þá hv. þingmann: (Forseti hringir.) Hvað þýðir það? Ég fékk engin svör. (Forseti hringir.) Kynnu grunsemdir hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur að vera (Forseti hringir.) réttar þegar upp er staðið?