145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:16]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hvað vakir þá fyrir hv. þingmanni sem lét þessi orð falla? Hvað þýðir að samhæfa eigi þróunarsamvinnu við önnur verkefni ráðuneytisins? Kannski gæti hv. þm. Karl Garðarsson upplýst okkur um það? Hann á líka sæti í utanríkismálanefnd og er mikill sérfræðingur um margt sem lýtur að utanríkismálum eins og ég þekki mjög vel af góðu samstarfi við hv. þingmann. Ég held að það þurfi að skýra þetta. Ég hef spurt eftir þessu hér í dag. Engin svör hafa komið.

Herra forseti. Það er auðvitað orðið mjög framorðið í þessu máli. Í dag hafa komið fram nýjar upplýsingar af hálfu bæði hæstv. ráðherra og hv. þingmanns sem ég nefndi hér áðan, Silju Daggar Gunnarsdóttur, sem mér finnst að þurfi að skoða áður en við lokum málinu. Hæstv. ráðherra sagði hér í dag að það væri tóm vitleysa að það hefðu engar skýringar komið fram í þessari umræðu um tvíverknað milli Þróunarsamvinnustofnunar og utanríkisráðuneytisins. Síðan þuldi hann upp mörg tilefni sem ég hafði aldrei heyrt. Ég hef setið flesta fundi og alla framan af, sem um þetta mál hafa fjallað. Ég hef spurt hæstv. ráðherra mjög oft um þessi mál og það hafa engin svör komið. Þetta er óupplýst. Að vísu sagði hv. ráðherra að það væri tvöfaldur gagnagrunnur. Ég veit ekki hvaða gagnagrunnur það er sem er svo stór að vöxtum að hann kosti stórkostlegt fé og fokdýra fjármálastjórn.

Gott og vel. Ef hæstv. ráðherra telur að þetta sé eitthvað sem þarf að vinda bug að þá liggur fyrir þinginu sáttatillaga sem kemur í veg fyrir þennan möguleika. Þó að það sé framorðið, herra forseti, ætla ég samt að spyrja hæstv. ráðherra, ég veit að það er fjandans frekja af mér, hvort hann telur ekki algjörlega nauðsynlegt að þessari umræðu verði frestað og málið skoðað í nefndinni (Forseti hringir.) áður en við göngum til atkvæða. Við þurfum að vita hvað við erum að greiða atkvæði um og (Forseti hringir.) hér hafa komið fram nýjar upplýsingar.