145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:26]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar til að hrósa hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir staðfestu hans í þessu máli. Hann er að tala um málefni sem er honum hugsjónamál, sem hann hefur kynnst af eigin raun í starfi sem einstaklingur og lagt þar mikið af mörkum sem slíkur. Hann hefur sinnt þessu máli sem utanríkisráðherra Íslands og ber hag þessa málefnis mjög fyrir brjósti af þeim sökum þannig að hann verður ekki sakaður um að hafa ekki reynt að koma á framfæri þeim sjónarmiðum sem hann telur skipta máli í þessu efni. Hann hefur talað þessu máli innan veggja Alþingis en einnig utan veggja þess á fundum, skrifað blaðagreinar og þar fram eftir götunum. Nú þegar hillir undir að síðustu orðin verði sögð í þessari umræðu langar mig til að beina einni spurningu til hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem hefur talað fyrir málamiðlun í þessu efni: Getur hann í nokkrum setningum sagt okkur í hverju sú málamiðlun væri fólgin? Ég geri mér fyllilega grein fyrir því, og það hefur komið fram í hans máli, að hann vill helst engar breytingar gera á núverandi fyrirkomulagi og vill að við höldum okkur við það fyrirkomulag sem nú er við lýði. Síðan eru gagnstæð sjónarmið, hæstv. núverandi utanríkisráðherra er (Forseti hringir.) á öðru máli.

Hverjar teldi hv. þm. Össur Skarphéðinsson helstu mögulegu málamiðlanir í þessu efni?