145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:17]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir spurninguna. Hún spurði um kostnað, sem áætlað er að verði af eða hljótist við að fara í þessar skattkerfisbreytingar. Þegar tekjuskattsbreytingarnar verða að fullu komnar fram á tveimur árum þá eru þetta um 11 milljarðar sem fara til heimilanna, gætum við orðað.

Síðan er það samsköttunin. Samsköttunin kostar ríkissjóð, eins og hún er í gildi núna að helmingi með þaki upp á 205 þús. kr. og verður í gildi á næsta ári, nálægt 1,5 milljörðum. Færum við þá leið að heimila samsköttun að fullu á milli — ja, þrepin eru í raun og veru bara tvö, við getum kallað það tröppu á persónuafsláttinn og svo tvö þrep sem umhverfast í kringum 700 þús. kr. Þegar við erum búin að færa þrepin niður á þann punkt þá mun þetta verða 3,5 milljarðar. Þannig að við getum sagt að það kosti um 2 milljarða að taka það skref til fulls. (Gripið fram í: En dömubindin?) 184 þús. kr. kostar að fara með toll af dömubindum og túrtöppum niður í 0%.