145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:19]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er gott að fá þessar upplýsingar. 184 þús. kr. sagði hv. þingmaður að það kosti að afnema tolla af dömubindum og túrtöppum. Mér finnst það merkilega lág fjárhæð, satt að segja, og furðulegt í raun og veru að þetta hafi ekki verið gert fyrr.

En ég vek athygli á þessari fjárhæð, þ.e. að sú breyting sem meiri hlutinn leggur til til að heimila samsköttun milli þrepa hefur þá í rauninni neikvæð áhrif á ríkissjóð um 2 milljarða og til fulls eru það 3,5 milljarðar. Ég get svo sem tekið undir þau sjónarmið sem kunna að vera uppi, að það kann að virðast óréttlátt þegar annar aðilinn hefur miklu hærri tekjur en hinn en heildartekjurnar eru tilteknar, að þeir séu þá skattaðir með öðrum hætti en til að mynda hjón þar sem tekjurnar eru tiltölulega jafnar. En það breytir því samt ekki að ástæða þess að þetta hefur ekki verið hefur kannski fyrst og fremst verið kynjasjónarmið, þ.e. langoftast eru það konurnar sem eru með lægri tekjurnar og karlarnir sem eru með hærri tekjurnar og þetta hefur í raun og veru ekki þótt hvetjandi til eðlilegrar þróunar í launamun kynjanna til dæmis, að hafa þetta ákvæði inni.

Mig langar að vita í ljósi þess að ætlunin er að hér sé kynjuð hagstjórn og fjármála- og efnahagsráðuneytið er með sérfræðinga í svokallaðri kynjaðri hagstjórn, hvort meiri hlutinn hafi fengið álit þeirra sérfræðinga á því hvaða áhrif þessi breytingartillaga meiri hlutans í efnahags- og viðskiptanefnd hefur á kynin, hvaða ólíku áhrif hún hefur á karla og konur. Ég held, frú forseti, að við þurfum að hafa þau áhrif auðvitað á hreinu áður en frumvarpið kemur hér til afgreiðslu, hvaða ólíku áhrif það hefur á kynin.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann. Liggur sú greining fyrir og hvernig er hún þá, ef hún liggur fyrir?