145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir spurningu er snýr að samsköttun og samsköttunarsjónarmiðum.

Upphaflega var nokkuð góð samstaða í nefndinni með því fyrirkomulagi sem er til staðar og svo voru sjónarmiðin mögulega í þá átt að ganga í þetta að fullu, en hjá einhverjum væntanlega ekki.

En þetta með kynjasjónarmiðin. Ég verð bara að játa að það var ekki tekið fyrir í nefndinni og engar upplýsingar liggja fyrir um það. Ég get alveg tekið á mig ábyrgð að því leytinu til vegna þess að þetta hefur auðvitað komið til umfjöllunar í gegnum tíðina, bæði hefur maður séð þetta í skýrslum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og víðar. (Gripið fram í.) Já, einhvers staðar las ég, af því að þetta snýr að öðrum réttindum líka, lífeyrisréttindum og fleiru, í úttekt hjá lífeyrissjóði um áhættu á milli hjóna þegar þau geta dreift lífeyrisréttindum á milli. Og það sama er í raun og veru með tekjurnar þegar við förum að hafa með svona ákvörðunum áhrif á þær ákvarðanir sem eru teknar. Við þurfum alltaf að horfa til þess. Þetta er vissulega sjónarmið sem við þurfum að skoða betur. Við höfum heilt ár til þess áður en þetta tekur gildi, en í 13. gr. breytingartillagna á þingskjali 578 er gildistökuákvæði og það tekur gildi að ári liðnu. Við höfum því tíma fyrir okkur. Ég hvet hv. þingmann til að halda okkur við efnið með það og skoða þetta nánar. Vissulega tilefni til.