145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur góða spurningu.

Hv. þingmaður kom inn á stöðu efnahagslífs og í hvaða stöðu við erum núna. Við skulum bara gefa okkur að það sé blússandi góðæri. Hagvöxtur hefur verið hér, að vísu hægur í einhvern tíma, og tengdi hv. þingmaður það gjaldmiðlinum sem er mikið til umræðu. Það er nú þannig með hagfræðina að hún beitir orðatiltækinu að öðru jöfnu, á latínu, með leyfi forseta, ceteris paribus. Ég vildi að veröldin væri svört og hvít oftar en hún er. Það eru vissulega kraftar sem togast á.

Varðandi gjaldmiðilinn hef ég ekki fundið neina patentlausn á því, hvorki í mínu eigin hugskoti né hjá neinum af þeim sérfræðingum eða skýrslum sem um það fjalla, alla vega ekki til skemmri tíma litið. Ég velti fyrir mér og horfi til Finnlands sem er í stórkostlegum vandræðum núna að þurfa að skera niður á vinnumarkaði um 15%, annaðhvort í kostnaði eða það komi þá fram í auknu atvinnuleysi. Þeir ná ekki að aðlagast evrunni sem þeir eru búnir að hafa í 17 ár. Í Danmörku hafa menn tengt dönsku krónuna við evruna og eru í miklum vandræðum með mjög lága stýrivexti þar sem lán safnast upp, og að hluta til mjög vond lán, sem þeir koma til með að þurfa að afskrifa. Í Noregi eru menn núna að treysta á það að gengið falli til að hjálpa öðrum útflutningsatvinnugreinum en olíuiðnaðinum sem er í stórkostlegum vandræðum. Þetta er því sannarlega ekki einfalt. En þetta eru sannarlega stórar spurningar sem við eigum að ræða í þingsal. Mér finnst þetta afar góð spurning.