145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[20:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir áliti 1. minni hluta í efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga, sem á innanhússmáli er gjarnan kallað bandormurinn. Þar er kveðið á um þær tekjur sem eiga að standa undir ríkisútgjöldunum.

Við skilum þessu minnihlutaáliti í sameiningu, fulltrúi Samfylkingar, þ.e. undirrituð, og fulltrúi Vinstri grænna í efnahags- og viðskiptanefnd, hv. þm. Katrín Jakobsdóttir. Nefndarálitið er almenns eðlis þar sem aðallega er farið yfir skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Ég mun fara yfir það í grófum dráttum og koma svo nánar inn á einstaka liði í frumvarpinu eða jafnvel í einhverjum breytingartillögum þótt þeirra sé ekki getið sérstaklega í nefndarálitinu sjálfu.

Þessar tillögur í skattamálum endurspegla stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum, hvort sem er á tekju- eða gjaldahlið. Þess vegna eru þetta náttúrlega hápólitískar tillögur, rétt eins og margt í fjárlagafrumvarpinu sem við ræddum hér og lukum við að ræða í gær er líka hápólitískt. Því er kannski ekki furða þó að fólk greini nokkuð á um hvernig standa beri að hlutunum. Ríkisstjórnin hefur lagt mikið upp úr því að einfalda skattkerfið eins og það er kallað. Mér sýnist það hins vegar þýða því miður fyrst og síðast að minnka álögur á þá sem best hafa það í þjóðfélaginu en gera miklu minna, ef þá nokkuð, fyrir þá sem lakar eru staddir efnahagslega. Þannig tel ég að ríkisfjármálapólitík ríkisstjórnarinnar, hvort heldur er á tekjuhliðinni eða gjaldahliðinni, auki mjög á ójöfnuð í þjóðfélaginu.

Það var rétt sem fram kom í umræðunum í gær að jöfnuður í þjóðfélaginu jókst mjög á fyrstu árunum eftir hrun. Það sem olli því var hvort tveggja að mikill auður tapaðist og hvarf þegar banka- og efnahagskerfið hrundi og að þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin greip til á síðasta kjörtímabili beindust að því að reyna að hlífa þeim sem minna höfðu og leggja þá meira á breiðu bökin sem svo eru kölluð. Enda er það í samræmi við stefnu þeirra stjórnmálaflokka sem þá voru við völd og er stefna sem mér þóknast og hugnast vel í ríkisfjármálum, að þeir sem meira hafa leggi meira af mörkum en þeir sem minna hafa og að við hjálpum þeim sem minna hafa eftir því sem mögulegt er.

Í fyrra var byrjað á að breyta virðisaukaskattskerfinu. Hærra þrepið var vissulega lækkað úr 25,5% í 24% en lægra þrepið var hækkað úr 7% upp í 11%. Það er einmitt í því þrepi sem nauðsynjar eru, svo sem eins og matur. Því var matarskatturinn sem svo er kallaður hækkaður úr 7% í 11%. Það stóð reyndar til að hækka þrepið upp í 14% en öflug andstaða við það, bæði innan þings og utan, meira að segja innan stjórnarmeirihlutans, kom í veg fyrir það. Endirinn varð sá að virðisaukaskatturinn var hækkaður úr 7% í 11%. Það áttu að koma mótvægisaðgerðir við það, sérstaklega út af hækkuninni á matarskattinum sem leggst auðvitað þyngst á og kemur helst við þá sem þurfa að eyða stærstum hluta tekna sinna í mat. Þess vegna voru boðaðar mótvægisaðgerðir. Barnabætur voru hækkaðar um milljarð. Vaxtabætur voru hækkaðar um 400 millj. kr. En hvað gerðist síðan? Núna í frumvarpi til fjáraukalaga, sem við ræðum væntanlega aftur síðar í kvöld, eru af barnabótunum teknar 600 millj. kr. til baka og þeim skilað aftur í ríkissjóð. Menn segja að það sé af því að viðmiðunarmörkin voru ekki hækkuð þannig að tekjuskerðingar urðu til þess að einungis 400 millj. kr. af 1 milljarði í mótvægisaðgerðirnar komu fólki að einhverju gagni. Hvað varðar vaxtabæturnar sem áttu að vera 400 millj. kr. er 200 skilað aftur í ríkissjóð í fjáraukanum. Þannig fór um sjóferð þá, ef svo má kalla, þegar átti að hjálpa þeim sem eru með börn og lágar tekjur og þurfa að borga vexti. Það skilaði sér ekki einu sinni helmingurinn af þessum mótvægisaðgerðum.

Síðan hækkaði líka virðisaukaskattur á bækur og tónlist. Menn hafa áhyggjur af læsi en hækka virðisaukaskatt á bækur á sama tíma. Maður hefði haldið að eitt það besta sem hægt væri að gera til að auka læsi væri að menn gætu búið til bækur og selt þær á viðráðanlegu verði svo krakkarnir hefðu eitthvað skemmtilegt að lesa. Það er náttúrlega ein forsendan fyrir því að fólk læri og nenni að lesa, að það hafi eitthvað skemmtilegt að lesa.

Þá kem ég að tekjuskattinum. Lagt er til að fækka tekjuskattsþrepum og á að fækka þeim úr þremur í tvö á tveimur árum. Allt bendir til þess að lokatakmarkið sé að hér verði einungis eitt tekjuskattsþrep. En þrepaskipt tekjuskattskerfi er mjög öflugt tekjujöfnunartæki, virðulegi forseti. Þegar nýfrjálshyggjan var í sem mestum metum fyrir áratug eða tveimur var mikil tíska að taka ætti þrepaskipt tekjuskattskerfi úr sambandi þar sem það var við lýði. Ég held að það hafi verið á níunda áratugnum eða svo sem jaðarskattur efstu tekna í Bandaríkjunum fór yfir 90%. Það voru náttúrlega gífurlegar tekjur. En með nýfrjálshyggjunni fór hann niður fyrir 40%. Þessi kenning um að með því að allir borgi sama hlutfall af skattinum og þeir sem ríkastir eru hafi nóg, seytli það einhvern veginn niður um allt þjóðfélagið, kölluð brauðmolakenning, hefur verið rækilega afsönnuð. Það er rétt um ár síðan OECD gaf út tímamótaskýrslu og þar er beinlínis sagt að eftir rannsóknir sem hafa verið gerðar í OECD — og þá er rétt að rifja upp um leið og það er sagt að OECD hefur ekki verið nein sérstök kratastofnun — hafi þeir komist að því og því er haldið fram í þessari skýrslu að meiri jöfnuður geri samfélögin ekki bara réttlátari og þá um leið betri til að búa í heldur verði þau einnig efnahagslega betur sett og hagvöxtur verði meiri, hann aukist eftir því sem dragi úr ójöfnuði. Þá er það náttúrlega eftir íslenskum stjórnvöldum að fara í þveröfuga átt og draga úr þeim tekjujöfnunartækjum sem voru innleidd hér á síðasta kjörtímabili. Það finnst mér ekki skynsamlegt.

Því er haldið fram, fjármálaráðherra heldur því fram og ekki bara hann, að við getum ekkert verið að gagnrýna þessar tillögur ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir og afnám þrepaskipts tekjuskatts vegna þess að um þetta hafi verið samið í kjarasamningum. En mér sýnist það vera þannig að ríkisstjórnin hafi smyglað stjórnarstefnu sinni inn í þá kjarasamninga sem gerðir voru í vor. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í gær þegar tryggingagjaldið var til umræðu, sem ég ætla að koma nánar að á eftir, og hann var spurður af hverju ríkisstjórnin legði ekki áherslu á að lækka tryggingagjaldið sem kemur öllum fyrirtækjum til góða, að aðilar vinnumarkaðarins hefðu frekar viljað fara tekjuskattsleiðina. Nú ætla ég auðvitað ekki og mér dettur ekki í hug að segja að það sé ekki rétt hjá fjármálaráðherranum. En mér finnst þetta svolítil skreytni. Ég held einhvern veginn að aðilum vinnumarkaðarins hafi verið boðið þetta mjög stíft fremur en að talað hafi verið um tryggingagjaldið. Mér kemur líka í hug þegar ég tala um þetta, því þarna er verið að tala um aðila vinnumarkaðarins, það er ASÍ og svo eru það Samtök atvinnulífsins, að í þessum kjarasamningum, sérstaklega innan Samtaka atvinnulífsins, vega stórfyrirtækin svo þungt. Þau hafa svo mikil áhrif. Og það er alveg ljóst að lækkun tryggingagjaldsins kemur sér miklu betur og er dýrmætari hlutfallslega fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki en stór fyrirtæki. Tryggingagjaldið er launaskattur og launin vega svo miklu þyngra í kostnaði lítilla og meðalstórra fyrirtækja en stóru fyrirtækjanna. Þess vegna hef ég svolitlar grunsemdir um að stórfyrirtækin leggi ekki jafn mikið upp úr lækkun tryggingagjalds og minni fyrirtæki gera.

Ríkisstjórnin leggur til með þessum skattalækkunum að á tveimur árum lækki tekjuskattar um 11 milljarða og má segja að það sé það sem hún hafi lagt til til að kjarasamningar næðust. Ef maður tekur þessa 11 milljarða og skoðar þá í hlutfalli af tryggingagjaldinu þá eru 11 milljarðar hlutfallslega 12% af tekjum af tryggingagjaldinu. Með einfaldri þríliðu má gróft reikna að það jafngildi 0,9 prósentustigum af tryggingagjaldinu. Gjaldið yrði þá 6,35% sem er einungis einu prósentustigi hærra en það var þegar það var fyrst hækkað eftir efnahagshrunið. Þannig að ef þessir 11 milljarðar sem eru vegna tekjuskattslækkunar hefðu verið teknir af tryggingagjaldinu hefði ekki einu sinni þurft að lækka það til jafns við það sem það var áður en það fór að hækka. Mér er alveg óskiljanlegt hvers vegna þessi leið var ekki farin. Þá um leið hefðu fyrirtækin þurft að bera ábyrgð á launahækkunum vegna þess að það er það eðlilega, virðulegi forseti, að fyrirtækin semji ekki um launahækkanir sem þau geta ekki staðið undir og sem er ætlast til að komi í gegnum tekjuskattskerfið. Það veldur því líka þegar er farið að hræra þessu öllu svona í einn graut að erfiðara verður að nota ríkisfjármálin til þess að stilla af efnahagslífið. Það er alveg ljóst að við þær aðstæður sem við búum við núna með þessar miklu skattalækkanir er hætta á að þær muni valda mjög mikilli þenslu í efnahagslífinu.

Þetta var almennt um tekjuskattsbreytingarnar. Við erum algerlega á móti því að afnema þrepaskipt skattkerfi. Ég ætla líka að koma inn á samsköttun hjóna sem nú er lagt til að taka upp að fullu. Það hefur verið þannig í þrískipta tekjuskattskerfinu að hægt hefur verið að færa á milli efsta þreps og miðþreps skattbyrði ef tekjur hjóna eru mjög misjafnar, allt upp í að það geti sparað 205 þús. kr. í skatt á ári. Það mun verða þannig líka á næsta ári en síðan á að fækka þrepunum og þau verða tvö. Þá allt í einu leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til, og það er ekki samkvæmt tillögu fjármálaráðuneytisins, ég vil taka það fram, heldur er þetta tillaga meiri hluta nefndarinnar, að hægt verði að flytja tekjuskattsbyrðina eða tekjur á milli þeirra tveggja þrepa sem standa eftir. ASÍ hefur reiknað út að ef hjón eru með 1,4 millj. kr. í tekjur á mánuði geti þetta numið allt að 900 þús. kr. á ári, ef annar aðilinn vinnur ekki. Þá er hægt að lækka skattbyrðina um 900 þús. kr. á ári. Þau ætla ekki að hafa neitt hámark á þessu eins og er í dag. Þetta á að kosta 3,5 milljarða. Við höfum verið að tala um að bæta kjör eldri borgara og öryrkja til jafns við það sem aðrir launþegar fá. Það eru rúmir 6 milljarðar, náttúrlega minna ef tekið er tillit til þess að síðan er greiddur einhver skattur af því, en þarna ætlar meiri hlutinn að færa mjög tekjuháum heimilum allt upp í 900 þús. kr. á ári, 3,5 milljarða, 2 milljarða viðbót við það sem samsköttunin sem leyfð er í dag leyfir. Þetta finnst mér algerlega ótrúlegt.

Mig langar að nefna líka tillögur um húsaleigu. Gerð er tillaga um að tekjuskattur af tekjum vegna leiguhúsnæðis sem núna eru skattlagðar einungis 70%, lækki og verði 50% af tekjum af leiguhúsnæði sem teljast til skatts. Menn segja að þetta sé til þess að auka framboð á leiguhúsnæði. Það má vel vera. Það er skýrt tekið fram að þetta verður að vera löng búseta, það er ekki hægt að nota þetta ef fólk er að leigja til ferðamanna í styttri tíma. En mig langar af þessu tilefni að minna á tillögu samfylkingarfólks í þessum efnum. Við höfum lagt til að leigutekjur af einni íbúð verði algerlega skattfrjálsar. Það er ekki óeðlilegt að fólk eigi kannski eina aukaíbúð, kjallaraíbúð, eldra fólk eða þannig. Mér finnst það nær en að lækka skatt af þessum tekjum ef fólk á kannski margar íbúðir. Það getur vel verið að einhverjir eigi fjórar, fimm íbúðir og þá lækkar tekjuskattur af þeim. Það er þá í línu við annað að þeir sem eiga margar íbúðir sem þeir geta leigt út eru náttúrlega miklu betur staddir en hinir sem eiga hugsanlega eina. Þannig að þetta er enn á sömu bókina lært.

Mig langar einnig að nefna bílaleigurnar. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til að fresta því um eitt ár að bílaleigurnar fari að borga öll þau gjöld sem gilda almennt um bíla og þær séu enn í því sérumhverfi sem þau hafa verið. Það er vegna þess að bílaleigurnar segja: Þetta kemur svo seint, við erum ekki tilbúin að taka við þessu. Ég ætla svo sem ekki að setja mig upp á móti því að menn fresti þessu í eitt ár. En hins vegar hafa þeir sem reka bílaleigur vitað það í mörg ár að þetta stæði til. Það er engin spurning með það. Það er líka alveg ljóst að bílaleigum hefur fjölgað um mörg hundruð prósent undanfarið. Þær voru tíu, tuttugu fyrir fimm eða sex árum og nú eru þær yfir hundrað. Það er ljóst að þetta er alveg blússandi bissness enda hefur ferðamönnum fjölgað mikið eins og við vitum öll. Og alveg eins og það er sjálfsagt að hjálpa fyrirtækjum og atvinnurekstri þegar hann er að byrja, þá verða þeir sem eru í atvinnurekstri að eldast. Við erum með börnin heima hjá okkur, við ölum þau upp og þau ganga í skóla en svo verða þau náttúrlega að fara einhvern tímann að heiman, annað er ekki hægt. Það er alveg eins með atvinnugreinar sem hafa fengið svona meðgjöf eins og bílaleigurnar hafa vissulega fengið til að létta þeim róðurinn og til að þær komist á legg, þær verða líka að fara að heiman. Atvinnugreinar verða einhvern tíma að fara að greiða skatta og skyldur og leggja til hinna sameiginlegu sjóða.

Þá vil ég nefna í tengslum við þetta og líka út af virðisaukaskattinum að menn eru núna að breyta virðisaukaskatti af leiðsögn, færa hann niður í 11% um áramótin og segja: Það er af því að á öðru í ferðamannaiðnaðinum er 11% skattur, á rútuferðir og fleira. Þá eru menn að velta fyrir sér hvort ekki sé líka rétt að hafa 11% skatt á bílaleigubílum. Er ekki rétt að ferðaþjónustan almennt greiði bara 11% virðisaukaskatt? Þessu velta menn fyrir sér. En ef ein af þremur stærstu atvinnugreinunum eða sú stærsta, er hún ekki orðin stærri en sjávarútvegurinn, ætlar að vera á afsláttarkjörum, höfum við efni á því að allur atvinnurekstur í landinu sé á afsláttarkjörum? Ég tel það ekki vera. Atvinnuvegirnir verða, þegar þeir eru orðnir rótgrónir, að borga skatta og skyldur eins og við öll.

Eitt er þó ánægjulegt við breytingartillögur meiri hlutans varðandi bílaleigurnar. Það er breytingartillaga um að fastagjald sem bílaleigur hafa þurft að greiða til þess að komast inn á þessi sérkjör verði lagt af. Það hefur virkað þannig að sérkjörin eru miklu betri og meiri fyrir stóru bílaleigurnar en þær litlu því þær þurftu alltaf að byrja á að borga þetta fastagjald. Að það skuli hafa verið þannig er einmitt í sama dúr og ég nefndi með tryggingagjaldið. Hagsmunir stóru fyrirtækjanna eru alltaf í miklu meira fyrirrúmi í atvinnuuppbyggingu okkar en litlu og meðalstóru fyrirtækjanna. En það er í litlu og meðalstóru fyrirtækjunum þar sem framtíðin liggur til að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf. Mér finnst skipta máli að við áttum okkur á því.

Ég ætla að geta þess í lokin að við stöllur í minni hlutanum leggjum fram tvær breytingartillögur við frumvarpið. Annars vegar um viðmiðunarmörk um barnabætur, þegar þær byrja að skerðast, að viðmiðunarmörkin séu hækkuð og miðuð við lægstu laun. Það er til þess að þeim barnabótum sem við veitum á fjárlögum verði ekki öllum skilað inn aftur í fjáraukalögum næsta árs. Hins vegar leggjum við til að orkuskatturinn svokallaði verði ekki lengur tímabundinn heldur um framtíð. Orkufyrirtækin eða þeir sem nota orkuna leggi þannig sitt til hinna sameiginlegu sjóða.