145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[21:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur svarið. Varðandi tekjuskattinn sé ég engin rök í því að jöfnunaráhrifin fari út við það að fækka þrepum. Við erum hér með persónuafslátt sem er ein trappa og svo erum við með eitt þrep og það er sannarlega til einföldunar.

Þegar við erum að tala um einföldun meinum við ekki endilega að það sé erfitt fyrir skattstjórann að innheimta með færri þrep. Skattstjóri hefur sýnt fram á að hann getur klárlega átt við það. En við erum að horfa á einföldunina gagnvart þeim sem við erum að innheimta skatta af. Það er sannarlega til einföldunar.

Skattkerfi gagnvart þeim sem eru að taka ákvarðanir út frá skatti eiga auðvitað að vera einföld og fyrirsjáanleg. Við erum sannarlega að einfalda þetta. Við erum að ná þeim markmiðum að auka kaupmátt og ráðstöfunartekjur sem sannarlega var ákall um. Það er það sem stefnt var að ásamt því að einfalda. Markmiðunum, eins og lagt var upp með, erum við að ná.

Varðandi samsköttunina verð ég að koma inn á það að 3,5 milljarðar — það er ekki þannig að við séum að fara frá því að vera með núll. Samsköttun er leyfileg í dag; reyndar með þaki og að hálfu leyti í þessu þrepaskipta kerfi eins og það er, með þremur þrepum. En hún kostar 1,5 milljarða í dag, sú samsköttun. Þannig að kostnaðurinn við að fara í það að fullu er 2 milljarðar. Það er sá kostnaður sem við lítum til.

Það getur auðvitað munað ef tekjuskiptingin á milli hjóna eða sambúðarfólks, samskattaðra aðila, er ójöfn innbyrðis, allt að 30% eftir samsetningu, eftir því hvernig við erum að skattleggja. Það er ákveðið réttlæti í að eitthvert jafnræði sé þar á milli. Þess vegna erum við með þetta í dag. Að ganga alla leið getur, (Forseti hringir.) samkvæmt dæmi sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur, munað 781 þús. kr., það eru ekki 900 þús. kr., í skattlagningu.