145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[21:41]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Ég ætla aðeins að fá að ræða sérstaklega þessar skattalækkanir sem mér heyrðist hv. þingmaður hafa efasemdir um, ekki endilega í eðli sínu heldur frekar að formi til ef ég skildi rétt. Það eru þessar tekjuskattslækkanir sem liggja fyrir og þær breytingar á tekjuskattinum sem felast í fækkun þrepanna.

Hv. þingmaður segir: Þetta er ekki rétti tíminn. Nú er ekki rétti tíminn til að lækka skatta, í góðæri. En þetta er bara sama mantran og höfð er þegar illa árar. Þá er heldur ekki rétti tíminn til að lækka skatta á fólk og gefa því kost á að halda eftir meiru af sjálfsaflafé. Ég vil sérstaklega minna á að áform um skattalækkanir og breytingar á tekjuskattskerfinu voru innlegg í kjarasamningsviðræðurnar síðasta vor.

Maður vill varla hugsa þá hugsun til enda hvernig kjarasamningar hefðu endað ef þessu útspili hefði ekki verið teflt fram. Hv. þingmaður nefndi nefnilega — sem er alveg rétt, ég tek undir það — að það er vinnuálag á fólki. Það eru allir eins og útspýtt hundskinn daginn út og daginn inn, allan sólarhringinn. En gæti það ekki einmitt verið vegna þess að menn eru ekki með nógu miklar ráðstöfunartekjur? Getur hv. þingmaður ekki verið sammála mér um að þegar allt kemur til alls er það kannski ekki krónutalan sem skiptir máli, hvað það er sem kemur í vasann hjá fólki, útborguð laun, eða kjarasamningar eins og þeir eru gerðir á hverjum tíma, heldur ráðstöfunartekjurnar? Erum við ekki að reyna með þessum tekjuskattslækkunum að bregðast við því ákalli?