145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[21:46]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég get tekið undir það með hv. þingmanni að full þörf er á að lækka tryggingagjaldið. Það verður reyndar gert núna um áramótin — í mýflugumynd, ég get tekið undir það með hv. þingmanni. Mér finnst ekki nóg að gert þar. Enda eru áform um að lækka það verulega á næstu missirum. Einmitt til þess, það er gott að það komi fram, að tryggingagjaldið, þótt það sé launagreiðandinn, atvinnurekendur, sem greiðir það, hefur áhrif á tekjur launamanna. Það hefur áhrif á getu atvinnurekanda til að greiða laun og hækka laun þar með.

Ég vil hins vegar árétta að mér fannst hv. þingmaður kannski ekki fjalla neitt sérstaklega um þá kröfu sem hér hefur verið uppi, og ég held að við hljótum að geta verið sammála um, að það eru einmitt ákveðnir tekjuhópar, fólk í ákveðnum tekjuhópum, sem hafa verið kallaðir millitekjuhópar, sem hafa borið gríðarlegar byrðar hér undanfarin ár. Það er yfirlýst markmið, með þeim breytingum sem nú standa yfir, að koma til móts við það fólk, sem er obbinn af íslenskum launþegum.

En örstutt um virðisaukaskattinn. Mér finnst áhugavert að heyra aðeins nánar um hugmyndir hv. þingmanns um að setja virðisaukaskattinn í eitt þrep. Ég get svo sannarlega tekið undir það. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi einhvern tíma hugsað út í það hversu hár slíkur virðisaukaskattur gæti verið. Sjálf hef ég skoðað það á einhverjum tímapunkti og taldi raunhæft að það gæti verið 15–18% virðisaukaskattur, þar sem allt væri tekið inn, matvara og annað. En ég vil hins vegar benda á að of hár virðisaukaskattur er heldur ekki hættulaus, eins og hv. þingmaður vildi halda fram, vegna þess að fólk getur kosið með fótunum og efnameira fólk getur verslað erlendis.