145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[21:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mér heyrist að við séum ekki að nálgast þetta á ólíkum nótum. Ég held að við þyrftum að fara í dýpri vangaveltur um grunngerðina og tekjudreifinguna með einhvern talnabunka fyrir framan okkur til að ná einhverri lendingu þar.

Hins vegar langar mig að koma að tengingunni við stöðuna í hagkerfinu og sveifluáhrifin. Hv. þingmaður talaði um að það væri ekki tímabært að lækka skatta miðað við það góðæri sem við værum stödd í. Ríkisstjórnin lagði af stað með þá skýru stefnumörkun að forgangsraða í þágu heimila og horfa á efnahagshringrás grunneininganna sem ég veit að hv. þingmaður áttar sig á að eru atvinnulíf og heimili og svo erum við með einhvern sameiginlegan sjóð. Þessi hringrás þarf að virka fyrir heimilin og atvinnulífið. Hv. þingmaður nefndi opinbera fjárfestingu og svo atvinnuvegafjárfestingu. Þannig virkar þessi hringrás. Hið opinbera, atvinnulífið og heimilin var allt heft af skuldum. Það var unnið í því að ná niður skuldum. Það þurfti að bæta kjörin, hækka rauntöluna og auka svo kaupmáttinn. Það hefur tekist. Þá eykst eftirspurn og eftirspurn eftir vinnuafli eykst um leið því að hún er afleidd. Það ætti að skila sér í sameiginlega sjóði án þess að við gefum frá okkur jöfnunaráhrifin. Ég held, af því að efnahagsbatinn hefur verið það hægur, að fara þurfi hægar í þetta að þessu leyti og auka kaupmáttinn í leiðinni.

Ég trúi því að verkefnið (Forseti hringir.) fram undan sé að verja verðstöðugleikann. Hvernig sér hv. (Forseti hringir.) þingmaður fyrir sér að það verði gert?