145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[22:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Andersen og ég er sammála því sem hún segir, þetta er auðvitað aðalmálið, þetta er pólitíska málið. Ég held hins vegar að þar ljúki því sem við erum mjög sammála um í þessu máli.

Aðeins um tekjujöfnunarhlutverkið: Auðvitað er það rétt sem hv. þingmaður segir. Skólakerfið hefur jöfnunarhlutverki að gegna sé það ókeypis og fyrir alla og eins þeir innviðir sem við byggjum upp í samfélagi okkar, sem hafa þessu jöfnunarhlutverki að gegna.

Það hefur verið trú margra stjórnmálamanna að menntun sé það tæki sem leiði til mests jafnaðar, þ.e. að aukin menntun skapi og leiði af sér jöfnuð. Þau gögn sem Piketty teflir fram í bókinni sem ég vitnaði í hér áðan sýna fram á að menntun eykur tvímælalaust lífsgæði, hefur góðar afleiðingar fyrir samfélög, eykur vöxt í samfélögum, en leiðir ekki sjálfkrafa af sér meiri jöfnuð í samfélaginu. Að sjálfsögðu getum við sagt að kjör allra batni ef þeir mennta sig, en jöfnuðurinn eykst ekki endilega.

Virkasta aðgerðin til þess að auka jöfnuð, vilji maður stefna þangað, sem ég held að sé mikilvægt af þeim sökum sem ég fór hér yfir áðan, er að nýta skattkerfið.

Við erum ekki að fletja skattkerfið út, réttilega, það eru enn þá tvö þrep, en það er búið að fækka þeim úr þremur í tvö. Mér heyrist ýmsir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala fyrir því að lengra verði gengið í þá átt þó að það sé ekki gert í þessu frumvarpi. Hvar tekjumörkin eigi að liggja, hv. þingmaður spyr um það. Auðvitað þarf það að vera úrlausnarefni á hverjum tíma.

Ég er ekki endilega að gera athugasemdir við það nákvæmlega hvar tekjumörkin liggja hér, ég held að það sé eitthvað sem eðlilegt er að ná sátt um og meta út frá launaþróun í samfélaginu og öðru. Það hefur verið gagnrýnt að tekjumörkin hafi ekki verið sanngjörn í því þrepaskipta (Forseti hringir.) skattkerfi sem komið var á á síðasta kjörtímabili, þannig að ég held að þetta sé eitthvað sem er ávallt til endurskoðunar. Ég held að strúktúrinn sjálfur sé samt það sem skiptir mestu máli.