145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[22:30]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Ég stend að áliti meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar í þessu máli og þakka framsögumanni málsins fyrir ræðu hans og greinargóða lýsingu og yfirferð yfir nefndarálit meiri hlutans. Ég ætla hins vegar að nota tækifærið núna til að mæla fyrir breytingartillögu sem ég legg fram við frumvarp til laga um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarpsins. Þetta er breytingartillaga sem miðar að því að fella niður 59% toll á innflutning á tiltekinni gerð af snakki. Nefndin hafði til umfjöllunar afnám tolla á tilteknar vörur, eins og framsögumaður nefndarinnar kom inn á, og í því sambandi var athygli nefndarinnar vakin á því að afar háir tollar, 59%, sem ég held að ekki sé hægt að kalla annað en ofurtolla, séu almennt lagðir á innflutning á vöru sem falla undir tiltekið tollskrárnúmer, þ.e. tollskrárnúmerið 2005.2003.

Réttilega var bent á það í þeirri umfjöllun að gert væri ráð fyrir að fella niður tolla á unnar landbúnaðarvörur samkvæmt nýlegum samningi sem Ísland gerði nú á haustdögum við Evrópusambandið á sviði tollamála, en í þeim samningi er samið um að tollar á tilteknar unnar landbúnaðarafurðir verði felldir niður. Það var skilningur nefndarinnar við þá umfjöllun að verðtollur á vörur sem falla undir þetta framangreinda tollnúmer eigi fyrst og fremst rót að rekja til sögulegra forsendna, en eftir umfjöllun nefndarinnar var það úr að meiri hluti nefndarinnar legði ekki til breytingar á þessu, en hins vegar geri ég það og hef gert það hér með.

Snakk er margvíslegt. Það er ástæða til að fara nokkrum orðum yfir þann merkilega matvælaflokk og mætti segja sem svo að snakk sé einhvers konar safnheiti yfir það sem margir kalla kartöfluflögur eða flögur. Á mínu heimili kallast þessar vörur bara flögur hvernig svo sem þær eru í laginu. Þær geta verið skrúfur, skífur, keilur og hvað eina annað, en snakk er hins vegar líka margvíslegt að því leyti að það er ýmist búið til úr kartöflum, maís eða kartöflumjöli, eða einhverju af þessu þrennu, og einhvers konar deigi. Þetta er allt saman afskaplega fróðlegt. En það er líka rétt að geta þess að nú þegar hefur verið felldur niður á Íslandi tollur á evrópskar snakkvörur, ýmist með tvíhliða samningi Íslands við ESB eða samkvæmt EES-samningnum.

Tollflokkafrumskógurinn er almennt ekki auðveldur yfirferðar. Það á svo sannarlega við þegar kemur að þessu snakki, sem ég leyfi mér að nota hér sem yfirheiti, safnheiti, yfir allar þær tegundir sem ég hef nefnt. Flestar snakkvörur falla í tiltekin tvö tollflokkanúmer. Ég bið, virðulegur forseti, að afsaka þótt ég gerist hér tæknileg. Það kann að hljóma leiðinlega ef menn taka því svo, en þó má hafa af því nokkurt gaman ef menn setja sig í þær stellingar. Það er sem sagt annars vegar tollflokkurinn númer 1905.9060, en hann kallast nasl, svo sem skífur, skrúfur, hringir, keilur, stangir og þess háttar. Þetta er að mér skilst snakk úr kartöflumjöli og deigi. Nasl var svolítið nýyrði hvað mig varðaði, ég er ekki vön að kalla þetta nasl, en nasl er sem sagt hugtak sem er til í tollheiminum.

Á vörur í þeim vöruflokki sem ég var að nefna er lagður 20% tollur ef vörurnar koma frá tilteknum löndum utan Evrópusambandsins en enginn tollur er á þessum vörum samkvæmt samningi Íslands við ESB og reyndar líka EES-samningnum og ýmsum fríverslunarsamningum EFTA við mörg lönd, þar á meðal Kanada, Perú, Serbíu, Hong Kong, Kostaríka og fleiri lönd, þar er sem sagt 0% tollur.

Svo er það hins vegar tollflokkurinn sem breytingartillaga mín lýtur að, númer 2005.2003, en sá tollvöruflokkur kallast nasl, svo sem skífur, skrúfur, hringir, keilur, stangir og þess háttar, alveg eins og fyrri tollflokkurinn, nema með eftirfarandi viðbót: „þó ekki úr kartöflumjöli“, heldur sem sagt úr eiginlegum kartöflum. Þetta er algengasti vöruflokkurinn. Á vörur sem bera þetta tollnúmer er lagður 59% tollur nema ef vörurnar eru færeyskar. Samkvæmt sérstöku samkomulagi er enginn tollur sem fellur á þær vörur. Það eru fleiri tollflokkar sem varða naslið, rétt bara að nefna það. Það er einn tollflokkur sem kallast framleiðsla úr kartöflumjöli, lítill innflutningur er úr því tollnúmeri, en á þær vörur er lagður 42% tollur svona almennt. Aftur eru Færeyjar með tollfrelsið. Annar tollflokkur er undir heitinu kartöflur, þ.e. fín- eða grófmalaðar eða flögur. Á þær vörur er lagður 15% tollur svona almennt, en samkvæmt EES-samningnum er enginn tollur lagður á þær komi þær frá Evrópusambandinu.

Þá er það flokkurinn sem nú hefur verið samið um í samningum við Evrópusambandið en hefur ekki tekið gildi enn þá, það eru sneiddar eða skornar kartöflur, ófrystar, sem bera núna 76% toll, en samið hefur verið um 46% toll. Þetta eru kannski ekki beint snakkkartöflur, heldur einhvers konar sneiddar kartöflur, ég held að þetta falli ekki undir snakk.

Að lokum vil ég samt nefna, það verður að gera það líka, maíssnakk úr pressuðu poppkorni. Það ber 7,5% toll komi það frá löndum utan ESB, en engan toll ef það kemur frá hinu Evrópska efnahagssvæði. Þannig er að flestar snakkvörur sem fluttar eru inn frá Evrópusambandinu bera engan toll heldur einungis þær sem eru úr eiginlegum kartöflum.

Verndartollum er ætlað að vernda innlenda framleiðslu með þeim hætti að tollarnir eru lagðir á innfluttar vörur sem eru sambærilegar við hina innlendu framleiðslu. Þannig nýtur lambakjötið sérstakrar verndar, tollverndar, með því að lambakjöt frá öðrum löndum er tolllagt. Með sama hætti eru kjúklingar tollaðir og þar fram eftir götunum. Grænmeti ber stundum ofurtolla á þeim tímum þegar íslenskt grænmeti er á boðstólum, en annars ekki.

Í hinum dularfulla heimi snakksins er ekki um þetta að ræða. Íslensk snakkframleiðsla byggir nefnilega ekki á íslenskum kartöflum. Hún byggir í rauninni ekki á kartöflum. Um er að ræða iðnaðarframleiðslu þar sem búið er til úr innfluttu kartöflumjöli sem er með einhverjum hætti blásið upp hér á landi og lítil sem engin innlend aðföng notuð þá, nema loftið ef enn má telja loftið íslenskt sem blásið er þarna í. Eftir viðskipti Íslendinga með alls kyns loftslagskvóta þá gæti raunin orðið sú að þetta væri blásið upp með útlensku lofti.

Þá blasir það við að hér eru lagðir á ofurtollar á annars konar vörur úr kartöflum til að vernda vöru á Íslandi sem er ekki framleidd úr kartöflum. Hér úr þessum ræðustóli er fólki oft mjög misboðið, ég vil nú ekki vera svo stóryrt, en mörgum kynni að vera misboðið við slíka vernd. Þá spyrja menn: En er þá samt ekki í rauninni verið að tolla vöru sem er í samkeppni við hina innlendu? Er þá ekki hægt að réttlæta þessa ofurtolla? Jú, vissulega, en það eru margar aðrar sambærilegar vörur í samkeppni við innlenda vöru, eins og til dæmis snakk úr kartöflumjöli frá Evrópusambandinu, sem eru ekki tollaðar, svo ekki sé talað um margvíslegar staðgönguvörur hinnar íslensku framleiðslu.

Breytingartillaga þessi miðar að því að fella niður toll á snakkvörur sem búnar eru til úr eiginlegum kartöflum. Ég árétta að engar slíkar snakkvörur eru framleiddar á Íslandi, hvorki úr íslenskum né erlendum kartöflum. Þess ber líka að geta að íslenskir neytendur greiða og hafa verið að greiða 160 milljónir til að vernda þessa íslensku framleiðslu sem ber kannski 5% af íslenska markaðnum, snakkvörumarkaðnum.

Ég vil einnig geta þess að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessar vörur eigi að falla inn í 0%, en breytingin taki ekki gildi fyrr en 1. júlí á næsta ári. Ég vil hvetja hv. efnahags- og viðskiptanefnd að skoða þessi mál af fullri alvöru fram að þeim tíma með það að markmiði að komið verði í veg fyrir að aðrar sambærilegar vörur falli milli skips og bryggju. Ég geri mér alveg grein fyrir að það eru einhverjar vörur á þessum markaði sem munu enn bera einhvers konar ofurtolla. En markmiðið er að fá allar þessar vörur niður í 0% tollflokk.

Eru tollar skiptimynt í viðskiptum við önnur ríki? Þessi málflutningur kemur stundum upp, að menn vilja halda tollum á Íslandi til að við getum átt einhverja skiptimynt þegar við förum að ræða um aðgang að mörkuðum erlendis. Þetta er náttúrlega verulegur misskilningur á eðli viðskipta og samskipta á milli þjóða. Það er í besta falli misskilningur, en í versta falli er þetta bara blekking í þágu einhverra sérhagsmuna.

Í upphafi þessa árs voru vörugjöld sem höfðu verið lögð á hér á landi frá árinu 1988 afnumin með öllu. Enginn hélt því fram að ekki mætti afnema þau vörugjöld. Þetta voru vörugjöld á símtækjum og sjónvörpum frá Suður-Kóreu. Það var enginn sem hélt því fram að við ættum að bíða eftir því að Suður-Kórea hætti að skattleggja fisk til að við gætum afnumið þessi vörugjöld. Nei, við aflögðum bara þessi vörugjöld. Að mínu mati er það eitt mesta afrek núverandi ríkisstjórnar hingað til að teknu tilliti til lykta gjaldeyrishaftanna og samskipta við slitabúin. Tollar eru nefnilega ein versta tekjuöflunarleið ríkissjóðs vegna þess að afleiðingar af tollum eru svo margvíslegar og hinar óbeinu afleiðingar eru svo afskaplega óheppilegar. Tollar ráðast ekki bara að þeim sem kaupa hina tolluðu vöru, heldur skekkja tollarnir alla samkeppnisstöðu á þeim tiltekna markaði, ekki bara á tollmarkaðnum, heldur svo langt út fyrir hann líka. Menn leita í aðrar vörur, staðgönguvörur, og þá eru menn ekki endilega að leita í hagkvæmustu vörurnar. Þegar markaðurinn er heftur með tollum eru neytendur auðvitað sviptir sínu helsta hlutverki sem neytendur, þ.e. hlutverkinu sem lýtur að því að ýta undir þróun og hagkvæmni á markaðnum.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna þróunarlönd í þessu sambandi vegna þess að tollar hafa skelfilegar afleiðingar í þróunarlöndum. Afnám tolla á Vesturlöndum, í lýðræðisríkjum, í efnameiri löndum getur orðið, held ég, ein helsta þróunaraðstoðin. Meginforsenda þess að þróunarlönd geti náð sér upp úr fátækt er að opna aðgengi að mörkuðum fyrir þau lönd.

Tollar eru algjörlega heimatilbúinn vandi og er bein aðför ríkisvaldsins að þegnunum. Þess vegna eru tollar á algjöru undanhaldi hvarvetna í upplýstum lýðræðisríkjum. Við eigum ekki að bíða með hendur í skauti eftir samningum við önnur ríki vegna þess að fólk í öðrum löndum er ekki að missa svefn yfir tollum á Íslandi. Það varðar engan um tollinn hér.

Ef menn telja eða trúa því virkilega að tollar séu skiptimynt í viðskiptum og samskiptum við önnur ríki þá eiga menn auðvitað að fagna því þegar Ísland tekur frumkvæði að því að afnema tolla. Aðrar þjóðir hafa þá ekkert upp á okkur að klaga. Við eigum að standa sjálf upp úr þessum sandkassaleik og við eigum að hafna tollum og við eigum að fagna frjálsri verslun þvert á landamæri.

Þessi breytingartillaga er skref í þá átt og vegferð á leið til aukins gagnsæis í vöruverði, aukinnar samkeppni og lækkun vöruverðs og síðast en ekki síst betra siðferðis við tekjuöflun ríkisins. Ég heyri og vænti þess að hv. þingmenn, sem ég veit að langflestir gera, taki að minnsta kosti undir markmið þessara tillagna og ég hvet þá til að fylkja sér á bak við þessa breytingartillögu og halda svo áfram með hv. efnahags- og viðskiptanefnd að grisja þennan tollafrumskóg.