145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[22:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svarið og ítreka það að við höfum nákvæmlega sama markmið í þessu máli. Hæstv. ríkisstjórn hefur verið á þessari vegferð og við styðjum þá, enda stöndum við saman að áliti meiri hluta nefndarinnar. Hér hafa verið felld niður almenn vörugjöld. Það var gert með einu pennastriki. Við studdum það og það var tímabær aðgerð. Nú erum við að afnema tolla á fötum og skóm og þetta er allt í samhengi við þá stefnu að bæta kjör og auka ráðstöfunargetu heimilanna.

Hv. þingmaður kom inn á þær óformlegu umsagnir sem komu hér á lokametrunum. Það vill á tíðum verða að hér er brugðist við, þegar nefndarálit taka að birtast, því sem kemur þar fram. Það gerðist í þessu tilviki þar sem við töldum að við værum á sömu vegferð með þetta tollanúmer. Ég er sammála hv. þingmanni með það að við eigum ekkert að gefa eftir í þessu. Við eigum að halda áfram á þeirri vegferð að fella niður tolla.

Í breytingartillögu hv. þingmanns er gefin aðlögun í hálft ár. Við tökum þetta til að mynda fyrir í hv. efnahags- og viðskiptanefnd en í fríverslunarsamningum er yfirleitt miðað við eitt ár þegar þetta hefur áhrif á rekstur og samkeppnisstöðu. Ég er ekki í vafa um að við getum unnið þetta í góðri sátt og náð því sameiginlega markmiði sem við stefnum alltaf að, þ.e. að halda áfram að höggva niður þann frumskóg sem eru tollar og stuðla að gagnsæi og frjálsri verslun.