145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[22:55]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Af því að menn tala um heildstæða endurskoðun þá er það rétt. Nú er til dæmis verið að afnema tolla af fatnaði og skóm heildstætt. Hvað þennan snakkheim varðar vil ég árétta að nú þegar eru tilteknar snakkvörur afgreiddar inn í landið með engum tolli. Það er við því sem þessari breytingartillögu er ætlað að bregðast.

Hv. þingmaður vísaði í fyrra andsvari sínu til nýgerðs samnings Íslands við Evrópusambandið þar sem samið var um tiltekinn tollvöruflokk um lækkun á skatti niður í 46%. Það sýnir í hvílíkum ógöngum þessi mál eru í samningum við einstök ríki. Hvaða vit er í því að semja um lækkun á tolli úr 76% eða 79% niður í 46%? Hvaða vit er í þessu? Þess utan varðar sá tollflokkur sem þar um ræðir ekki beint snakkvörumarkaðinn heldur kartöflur á öðru formi. Þarna var verið að semja almennt um unnar landbúnaðarafurðir, en við eigum að gera svo miklu betur. Samningur sem þessi við Evrópusambandið, eins og aðrir fríverslunarsamningar, þar sem samið er um lækkun en ekki afnám tolla, hindrar ekki að Ísland gangi skrefinu lengra og geri hreint fyrir sínum dyrum.