145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[23:20]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er ekki á því að við eigum að hafa eitt virðisaukaskattsþrep. Ég er ekki sannfærð um að það sé rétt enn sem komið er að minnsta kosti. Það er of margt sem veldur ójöfnuði enn þá til að ég sé tilbúin til þess.

En ég mundi vilja hafa matvöru og annað slíkt í lægra þrepi. Vissulega er margt í efra þrepinu líka sem allir þurfa á að halda og allt það. En sérstaklega þegar kemur að matvörunni tel ég að við eigum að vera með lægra þrep. Ég vildi ekki hækka það upp í 11%, eins og fram kom þegar við ræddum þetta á sínum tíma þegar að það var lagt til.

En ég er sammála því að þrjú þrep sé flókið kerfi og það er kannski óþarfi að vera með þrjú þrep. Svo er auðvitað alltaf spurningin um bilið á milli, hvort við eigum að vera með 24% eða hvort við eigum að vera með 11% og allt það og hvað við ættum þá að miða við. Eigum við að miða við 15% á allt? Það er hluti af því að finna jafnvægi í þessu ef við ætlum að vera með eitt þrep, hversu hátt það á að vera. Hversu hátt þarf það að vera? Þyrfti það að vera að lágmarki 18% eða eitthvað svoleiðis? Ég átta mig ekki alveg á því.

En ég vil síður skattleggja matvælin og þar sem ég veit að ekki er hægt að hafa allt í einu virðisaukaskattsþrepi í 11%, eins og lægra þrepið er núna, þá vil ég ekki að við höfum aðeins eitt þrep.