145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[23:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég ítreka að skilvirkni kerfisins og sú stefna að breikka skattstofninn meðal annars með því að fækka undanþágum, er auðvitað það sem lagt er til og stefnt er að og þar á meðal í ferðaþjónustu. Hún er í auknum mæli tekin með. Hv. þingmaður vék að því að frá og með 1. janúar 2016 muni fólksflutningar verða virðisaukaskattskyldir, að almenningssamgöngum, ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk og aldraða og skólaakstri undanskildum.

Þarna er dæmi um þá klemmu sem við erum oft og tíðum að takast á við á vettvangi löggjafans. Þrátt fyrir háleit markmið um viðleitni að breikka skattstofninn, eins og í þessu tilviki, og fækka undanþágum, skapar opinber þjónusta eins og af þessu tagi ekki virðisauka og ekki er beinlínis markmiðið að skapa virðisauka og greiða þá skatta af því.

Í áliti meiri hlutans kemur fram það álit ríkisskattstjóra og túlkun hans á að almenningssamgöngur falli undir undanþágu 6. töluliðar 3. mgr. 2. gr. laganna.

En varðandi virðisaukaskattinn, og hv. þingmaður vék að ferðaþjónustunni, þá er ferðaþjónustan mjög verðmæt þegar kemur að grunnþjónustu. Mikið af uppbyggingu í grunnþjónustunni (Forseti hringir.) er hár fastur kostnaður eins og í hótelbyggingum, eins og hv. þingmaður vék að. En það er skoðun mín að við verðum að fara mjög varlega í að taka alla ferðaþjónustuna í hærra þrep.