145. löggjafarþing — 57. fundur,  17. des. 2015.

málefni aldraðra o.fl.

398. mál
[23:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum.

Tilgangur með frumvarpinu er að auka heimildir sjúkratryggingastofnunar til samningsgerðar um þjónustu í rýmum fyrir aldraða og einfalda um leið stjórnsýslu í samskiptum við stofnanir fyrir aldraða.

Hinn 1. janúar 2015 tóku lög um sjúkratryggingar að fullu gildi þegar ákvæði IV. kafla laganna, þ.e. ákvæði um samninga um heilbrigðisþjónustu, komu til framkvæmda að því er varðaði samninga við sveitarfélög og aðra þá sem reka hjúkrunarheimili. Frá sama tíma féll úr gildi heimild heilbrigðisráðherra til að ákveða með reglugerð daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt er í hjúkrunarrýmum sjúkrahúsa og hjúkrunarrýmum stofnana fyrir aldraða og hjúkrunarheimila. Með frumvarpi því sem varð að lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, var skilið á milli heilbrigðisþjónustu við aldraða annars vegar og almennrar öldrunarþjónustu hins vegar. Sá aðskilnaður er í samræmi við það viðhorf að öldrun sé ekki sjúkdómur sem kallar á heilbrigðisþjónustu heldur almenna öldrunar- og umönnunarþjónustu. Heilbrigðisþjónusta við aldraða var því á forræði heilbrigðisráðuneytisins en búsetuúrræði og almenn öldrunarþjónusta var flutt til félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

Í greinargerð með frumvarpi um breytingu á lögum um almannatryggingar o.fl., og fjallaði meðal annars um verkaskiptingu ráðuneyta og kaup á heilbrigðisþjónustu, sem varð að lögum nr. 160/2007, kom fram að ljóst væri að nokkurn tíma tæki að skilja á milli þess sem teldist almenn öldrunarþjónusta og þess sem teldist heilbrigðisþjónusta fyrir aldraða. Meðal þess sem ráðuneytin þyrftu að skilgreina nánar væri hvernig samskiptum og greiðslum við stofnanir fyrir aldraða skyldi háttað. Gert var ráð fyrir að skipta þyrfti daggjöldum í tvennt, annars vegar í daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu sem ætti undir heilbrigðisráðuneyti og hins vegar daggjöld vegna búsetu- og almennrar öldrunarþjónustu sem ættu undir félags- og tryggingamálaráðuneytið.

Margt hefur breyst frá því þetta var ritað og ráðuneytin hafa meðal annars verið sameinuð. Heilbrigðisráðherra fer nú einnig með, auk málefna hjúkrunarheimila, málefni dvalarheimila og dagdvalar samkvæmt forsetaúrskurði nr. 72/2013, um skiptingu starfa ráðherra. Ég skipaði því vinnuhóp undir forustu ráðuneytisstjóra velferðarráðuneytisins um verkaskiptingu velferðarráðuneytisins og sjúkratryggingastofnunar vegna yfirfærslu á samningnum um öldrunarþjónustu til stofnunarinnar. Niðurstaða vinnuhópsins var að sjúkratryggingastofnun semdi um og greiddi fyrir dvöl á öldrunarstofnunum, en ráðherra mundi eftir sem áður ákveða hámarkskostnaðarþátttöku heimilismanna. Einnig fól ég starfshópi að skoða samræmi laga um sjúkratryggingar, laga um almannatryggingar og laga um málefni aldraðra og heimildir Sjúkratrygginga Íslands til að semja við sveitarfélög og aðra þá sem reka heimili fyrir aldraða. Horft var til þess hvort lagaákvæði kæmi í veg fyrir að Sjúkratryggingar Íslands semdu bæði um dvalar- og hjúkrunarheimili auk dagdvalar. Niðurstaða starfshópsins var að svo væri og að nauðsynlegt væri að breyta lögum til þess að Sjúkratryggingar Íslands gætu samið bæði um dvalar- og hjúkrunarrými á heimilum fyrir aldraða auk dagdvalar.

Af þessu leiddi að ég ákvað að leggja fram frumvarp sem fæli í sér nauðsynlegar lagabreytingar til að sjúkratryggingastofnunin hefði heimild til að semja um báðar tegundir rýma á heimilum fyrir aldraða, auk dagdvalar, enda er slíkt fyrirkomulag talið hagkvæmt í stað þess að stofnunin semji eingöngu um hjúkrunarrými, en að daggjöld í dvalarrýmum verði áfram ákveðin af ráðherra með reglugerð.

Virðulegi forseti. Frumvarp það sem hér er mælt fyrir er samið af starfsmönnum velferðarráðuneytisins í samráði og samstarfi við Tryggingastofnun ríkisins og Sjúkratryggingar Íslands. Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:

Lagt er til að heimild ráðherra til að ákveða daggjöld í dvalarrýmum verði felld brott. Lagt er til að Sjúkratryggingar Íslands semji við heimili fyrir aldraða um dagdvöl og dvalarrými auk hjúkrunarrýma. Lagt er til að verkaskiptingu sjúkratryggingastofnunar og Tryggingastofnunar ríkisins verði breytt.

Dvalarrými sem hafa verið talin til félagslegra úrræða eru innan við 400 og fer fækkandi meðal annars vegna aukinnar heimaþjónustu og heimahjúkrunar á vegum heilsugæslunnar. Samþykki færni- og heilsufarsnefnda er forsenda fyrir dvöl í dvalarrými á sama hátt og fyrir dvöl í hjúkrunarrými. Þeir sem fá samþykki fyrir dvöl í dvalarrýmum eru jafnan eldri og veikari en áður og þurfa þess vegna á meiri hjúkrunarþjónustu að halda. Því er í reynd ekki lengur eðlismunur á dvalar- og hjúkrunarrýmum heldur stigsmunur varðandi hjúkrunarþjónustu. Þessar tvær tegundir rýma eru gjarnan undir sama þaki og rekstraraðili sá sami og því hagkvæmast að sjúkratryggingastofnunin semji um báðar tegundir rýma.

Samkvæmt gildandi lögum ákveður hins vegar ráðherra daggjald í dvalarrýmum. Þá heimild þarf að fella brott til þess að sjúkratryggingastofnunin geti samið um dvalarrými. Auk samningsgerðar er lagt til að sjúkratryggingastofnunin annist greiðslur til heimila fyrir aldraða, en Tryggingastofnun ríkisins hefur til þessa annast greiðslurnar. Ný greiðslustofnun krefst lagabreytinga. Lagt er til að Tryggingastofnun ríkisins muni áfram annast útreikninga vegna greiðsluþátttöku heimilismanna í dvalarkostnaði og er enn fremur gert ráð fyrir að heimilismenn leiti áfram til Tryggingastofnunar ríkisins þurfi þeir á upplýsingum sem tengjast útreikningnum að halda. Sjúkratryggingastofnunin mun aftur á móti sjá um samskiptin við heimilin. Taka nokkur ákvæði frumvarpsins mið af þessum breytingum.

Ég tel rétt að vekja sérstaklega athygli á að í frumvarpinu er lagt til að þeir sem eru yngri en 67 ára og dvelja í hjúkrunarrýmum taki þátt í dvalarkostnaði á sama hátt og þeir sem eru 67 ára og eldri. Það hefur ekki verið raunin til þessa þar sem beina lagastoð fyrir gjaldtöku hefur skort. Á hinn bóginn þykir það réttlætismál að allir heimilismenn sem hafa tekjur yfir nánar tilgreind mörk taki þátt í greiðslu dvalargjalds óháð aldri þeirra. Í frumvarpinu er lagt til að breytingin nái einungis til þeirra 67 ára og yngri sem verða heimilismenn á hjúkrunarheimilum frá og með gildistöku laganna 1. janúar 2016, þ.e. að breytingin nái ekki til þeirra sem þegar eru heimilismenn.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og leyfi mér því að leggja til að því verði vísað til hv. velferðarnefndar og til 2. umr.