145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[10:33]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um tillögu ríkisstjórnarinnar um að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður og flytja öll verkefni hennar inn í ráðuneytið. Samfylkingin er á móti þessari tillögu, við teljum að ÞSSÍ hafi staðið sig mjög vel og sé fyrirmyndarstofnun. Hún hefur hvarvetna hlotið lof fyrir störf sín og nýmæli, bæði heima og erlendis.

Það er hins vegar mikilvægt að um þennan viðkvæma málaflokk ríki sem mest þverpólitísk sátt. Þess vegna hefur stjórnarandstaðan gengið mjög langt í því að reyna að ná samkomulagi við meiri hlutann. Við höfum lagt fram tillögu sem við lítum á sem mjög ásættanlega málamiðlun fyrir alla. Hún felur það í sér að Þróunarsamvinnustofnun verði flutt í heilu lagi inn í ráðuneytin og starfrækt þar áfram sem ráðuneytisstofnun á grundvelli þess forms sem var í reynd skapað rými fyrir með breytingum á stjórnarráðslögum sem tóku gildi í júlí sl. Sömuleiðis felst í þessu að starfsmenn hennar verði undanþegnir flutningsskyldu. Þeir sem vilja sátt, þeir sem meina að þeir vilji ný vinnubrögð, greiða þessu atkvæði og þar með náum við sátt um þetta mál. Þeir sem vilja heldur ófrið þótt friður sé í boði (Forseti hringir.) fella hana.