145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[10:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Afrekaskrá þessarar ríkisstjórnar í málefnum þróunarsamvinnu er nú orðin meira en lítið dapurleg. Fyrsta verk hennar var að hverfa frá samþykktri áætlun um þróunarsamvinnu og lækka verulega framlög til þessa mikilvæga málaflokks sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Síðan hefur ekki verið samþykkt ný áætlun um þróunarsamvinnu þannig að örlög þessa málaflokks eru ákveðin í fjárlögum. Tillagan í fjárlagafrumvarpinu er undir þeim mörkum sem hæstv. utanríkisráðherra lagði til í vor en voru ekki samþykkt og nú á að bíta höfuðið af skömminni með því að leggja niður fagstofnun á sviði málaflokksins og færa hann inn í utanríkisráðuneytið.

Herra forseti. Mér finnst þetta sýna algjört áhugaleysi um þennan mikilvæga málaflokk og það veldur mér miklum vonbrigðum að sjá hvernig haldið hefur verið á máli sem hefði átt að vera hægt að ná sátt um og reynt hefur verið að ná sátt um á hinu pólitíska litrófi hingað til. Þetta mál, sem og aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) í þessum málaflokki, eru vonbrigði.