145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[10:39]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Björt framtíð styður ekki þessa sameiningu en við stöndum á bak við breytingartillögu minni hlutans sem við teljum vera sáttarboð til að reyna í lengstu lög að halda sátt í þessum málaflokki. Það er sorglegt að vera að ræða þessa tillögu og setja allan þann kraft sem við höfum sett í hana núna tvö þing í röð á sama tíma og við höfum ekki gilda þróunarsamvinnuáætlun og ekki er lögð fram slík áætlun.

Varðandi það sem hæstv. utanríkisráðherra nefndi áðan um að hlutfall okkar væri að hækka er einungis vegna aukinna framlaga til flóttamanna. Framlög okkar til þróunarsamvinnu, eins og við þekkjum hana, tvíhliða þróunarsamvinnu, hefur staðið í stað og er að leka niður ef eitthvað er og það er slæmt, það er sorglegt.