145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[10:41]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum nú að fara að greiða atkvæði um breytingu á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Mér finnst mjög dapurlegt hvernig komið er fyrir þessum málaflokki og hversu mikið áhugaleysi mér hefur fundist vera um þróunarmálin hjá meiri hluta þingmanna.

Þetta er málaflokkur sem skiptir alveg gríðarlega miklu máli inn í framtíðina og þess vegna er svo mikilvægt að sátt ríki um það hvernig við höfum þessa hluti. Þess vegna hefur minni hluti hv. utanríkismálanefndar lagt fram breytingartillögu. Svo ég tali fyrir mig finnst mér ég vera að ganga mjög langt í sáttarátt með þessari breytingartillögu og finnst þess vegna dapurlegt að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) skuli ekki ljá máls á þessu því að ég held að með henni gætum við komist nær því að vera nokkurn veginn sátt við málaflokkinn.