145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[10:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er alveg ótrúlega döpur yfir þessari niðurstöðu ríkisstjórnarinnar. Það eru nokkrar ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi vegna þess að það er verið að rjúfa frið um málaflokkinn sem ríkt hefur hér í áratugi. Síðast árið 2008 var samþykkt hér heildarlöggjöf um málaflokkinn sem núna er verið að rjúfa friðinn um.

Ég er líka döpur yfir því hvernig mál hafa þróast varðandi framlög til þróunarmála og ég er ekki síst döpur yfir því að stofnun sem hefur alþjóðlegar viðurkenningar — þó að framlagið hafi verið lítið hefur það verið áhrifaríkt alls staðar þar sem þessi stofnun hefur starfað. Hún hefur sömuleiðis haldið sig innan ramma fjárlaga og verið fyrirmyndarstofnun að því leyti.

Það er algjörlega ljóst í mínum huga að hluti stjórnarflokkanna hér inni greiðir atkvæði með þessari tillögu vegna sparnaðar, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kom inn á, en ráðherrann hefur sagt okkur hér að það sé ekki tilgangurinn með henni.

Virðulegi forseti. Hér inni veit enginn (Forseti hringir.) almennilega hvað hann er að gera vegna þess að þeir fylgdust ekki með þessari umræðu og þeim þunga sem var í henni hér, heldur var hún bara stimpluð sem eitthvert röfl hjá stjórnarandstöðunni. Menn hefðu betur fylgst með þessu þannig að þeir vissu hvað þeir væru að gera hér. Þetta er sorglegur dagur fyrir þróunarsamvinnu af hálfu Íslands.