145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[10:50]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ráðuneytisstofnun eins og lög um Stjórnarráð Íslands heimila passar í raun við allar þær breytingar sem ég hef heyrt á máli hæstv. utanríkisráðherra að hann vilji gera á þessum lögum. Það sem við í minni hlutanum höfum hins vegar lagt alveg gríðarlega mikla áherslu á, m.a. vegna þess að það hefur komið fram hjá öllum sérfræðingum sem hafa komið á fund nefndarinnar, er að það verður að standa vörð um fagþekkinguna í greininni. Þess vegna er í þessu ákvæði tekið fram að starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar skuli vera undanþegnir ákvæði um flutningsskyldu.

Þetta er alveg rosalega mikilvægt til að hægt sé að standa faglega að þróunarsamvinnu. Þess vegna ætla ég að styðja þennan lið í breytingartillögunni og vona svo sannarlega að fleiri geri það.