145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[10:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég væri ekki ærlegur ef ég segði ekki að ég er mjög dapur yfir þessari niðurstöðu. Ég held að við séum hér á rangri leið en á þessum tímamótum, þegar verið er að leggja af Þróunarsamvinnustofnun sem hefur staðið sig mjög vel í öllum sínum verkum og hefur sérstaklega risið hátt á síðustu árum, er þó ekkert annað að gera en að óska hæstv. ráðherra og öllum starfsmönnum sem tengjast þróunarsamvinnu farsældar í nýjum leiðangri. Ég óttast að þetta verði til lengri tíma skaðlegt fyrir þróunarsamvinnu en ég vona samt að ég hafi rangt fyrir mér. Í þessu máli skipti verulega miklu að stjórnarandstaðan teygði sig eins langt og hægt var en þessi niðurstaða sýnir að það er ekkert að marka þá nýju þingmenn sem hafa komið inn á þing og eru með munninn fullan af yfirlýsingum um ný vinnubrögð, nýja sátt og ný stjórnmál. Þetta er ekkert annað en gaul úr görnum valdsins (Forseti hringir.) og við í stjórnarandstöðunni tökum heim líka þá staðreynd að þegar stjórnarliðinu er boðið upp á sátt og frið kýs það fremur ófrið.