145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[10:58]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Allur geirinn sjálfur hefur mótmælt þessu og kallað þetta bráðræði, starfsmenn stofnunarinnar, fræðimenn uppi í háskóla og þeir sem á þessu sviði starfa. Svo leyfa þingmenn stjórnarliðsins sér að koma og óska þessu fólki til hamingju með daginn. Aðra eins ósvífni hef ég aldrei séð, þetta er einhver svakalegasta ósvífni sem ég hef orðið vitni að. Það segir manni að menn vita ekkert hvað þeir voru að gera hérna.

Virðulegi forseti. Sú ákvörðun sem hér er verið að taka er nokkuð sem ég veit að menn munu sjá eftir fljótlega vegna þess að þarna er verið að taka stofnun sem hefur staðið sig vel á fagsviði sínu og grauta henni saman við starfsemi ráðuneytis. Hvað mundu sömu þingmenn hér inni segja ef tekin yrði ákvörðun um að sameina krafta þeirra sem eru í áætlanagerð í samgöngum og vegagerð inni í innanríkisráðuneytinu við Vegagerðina og taka Vegagerðina inn í ráðuneyti? Þá mundi heyrast eitthvað í mönnum hér en það að menn leggi þetta ekki að jöfnu (Forseti hringir.) eins og ég geri segir manni hvernig menn virða og meta málaflokkinn þróunarsamvinnu, þeir sem eru hér að taka ákvörðun um að leggja hana niður. Það er skömm að þessu, virðulegi forseti, og ég er alfarið á móti þessu.