145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[10:59]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er fyrst og fremst döpur við þessa atkvæðagreiðslu vegna þess að ég hef áhyggjur af því að hér með sé verið að draga úr faglegum gæðum þróunarsamvinnu og það í heimi sem þarf svo sannarlega á því að halda að ríkari þjóðir heimsins leggi hinum fátækari lið. Þróunarsamvinnustofnun er stofnun sem hefur staðið sig alveg gríðarlega vel og ætti að mínu mati að starfa áfram á sinn faglega hátt. Ég verð hins vegar að vona að hæstv. utanríkisráðherra geti staðið við stóru orðin um að þetta verði allt í lagi en ég mun fylgjast mjög grannt með þessum málaflokki í framtíðinni og áskil mér allan rétt til að koma með gagnrýni ef mér sýnist ekki ganga nógu vel.

Ég segi nei við þessu.