145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Oft hefur verið tekist á um stóru línurnar í utanríkismálum á Íslandi og við höfum líka stundum deilt um hversu miklum fjármunum við gætum varið til þróunarsamvinnu. Það verður eiginlega að telja það afrek hjá hæstv. utanríkisráðherra að geta líka skapað logandi ófrið um fyrirkomulagið á því hvernig við ráðstöfum þeim peningum. Metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar á þessu sviði er algert og það er nöturlegt að menn skuli eyða tímanum í þetta í stað þess að Ísland gangi stolt fram nú um stundir með aukin framlög til þróunarsamvinnu í samræmi við batnandi þjóðarhag og leggi þannig sitt af mörkum í góðri sátt um að uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði um að útrýma hungri, fátækt og hörmungum í heiminum. Nei, það er ekki það sem hæstv. utanríkisráðherra er að slást fyrir, að Ísland geri betur í þeim efnum, heldur heldur hann mönnum í ágreiningi um fyrirkomulagið sem ágæt sátt hefur verið um fram að þessu. Það er varla hægt að komast neðar í frammistöðu (Forseti hringir.) hvað þennan málaflokk varðar en hjá hæstv. núverandi utanríkisráðherra, ríkisstjórninni og meiri hluta hennar á þingi.