145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[11:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta er hápólitískt mál og endurspeglar grundvallarhugmyndafræðilegan ágreining stjórnmálanna. Hér er það ætlun stjórnarmeirihlutans að draga enn úr tekjujöfnunaráhrifum skattkerfisins. Hér er sem sagt verið að fækka þrepum í hinu þrepaskipta skattkerfi og áfram haldið á þeirri leið að hverfa frá þeim tekjujöfnunaráhrifum sem voru samþykkt í skattkerfinu í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þetta er grundvallarspurning um hægri og vinstri, um þá hugmyndafræði að skattkerfið sé ekki einungis tekjuöflun heldur líka tekjujöfnun og hún endurspeglaðist vel í umræðunum hér í gær. Þar af leiðandi munum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjast gegn fækkun skattþrepa en sitja hjá við ýmis önnur ákvæði þessa frumvarps.

Stóra málið í þessu frumvarpi er þessi grundvallarhugmyndafræðilegi ágreiningur og þar höfnum við alfarið hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar þar sem aukinheldur getur það haft skaðleg áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar að ganga jafn hart fram í því að veikja (Forseti hringir.) tekjustofna samfélagsins og gert hefur verið á þessu kjörtímabili og varað hefur verið við.