145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[11:08]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þessi bandormur sem kemur árlega inn í þingið er alltaf jafn mikill og stór vitnisburður um það hvað það er mikið flækjustig í skattkerfinu. Drjúgur hluti vinnunnar í nefndinni við frumvarpið fór í að reyna að greiða úr ýmsum flækjum í virðisaukaskattskerfinu og víðar. Þetta er vitnisburður um það hversu erfiðlega ríkisstjórninni gengur að ná því markmiði sínu sem hún talar mikið um, um einfalt skattkerfi. Ég held að tryggingagjaldið hafi sjaldan verið jafn flókið og það virðast vera mjög lítil áform uppi um að einfalda virðisaukaskattskerfið eins og ætti að gera.

Í þessu snurfusi erum við í og með jákvæð og með, en að öðru leyti á gulu. Í stóru línunum vörum við við því að fara í lækkun á tekjuskatti á þessum tímapunkti, í uppsveiflu í hagkerfinu. Lækkun á tekjuskatti er gæði sem við eigum að eigum að eiga inni þegar kreppir að. Við eigum frekar að lækka tryggingagjald vegna þess að það á að vera lágt á góðæristímum vegna þess að það mun þurfa að hækka (Forseti hringir.) þegar kreppir að. Hér er mjög slæm hagstjórn í gangi, auk þess sem verið er að draga úr tekjujöfnunaráhrifum í tekjuskattskerfinu með því að fækka þrepum. Við sitjum hjá við þær breytingar.