145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[11:09]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við göngum til atkvæða um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2016. Hér speglast vissulega skattstefna hæstv. ríkisstjórnar þar sem áfram er létt á skattbyrði heimilanna með áherslu á millitekjuhópana eins og hæstv. ríkisstjórn lofaði í tengslum við kjarasamninga á vormánuðum. Breytingarnar koma þó öllum tekjuhópum til góða. Tekjuviðmið eru lækkuð og tekjuþrepum fækkað úr þremur í tvö á tveimur árum. Þá er haldið áfram á braut tollalækkana og munar þar mest um afnám tolla á fatnað og skó. Allt eru þetta aðgerðir sem auka ráðstöfunartekjur og kaupmátt og bæta þannig lífskjörin í landinu á forsendum aukinnar skilvirkni og einföldunar skattstofna og þess utan eru gjaldskrárhækkanir hóflegar og til þess fallnar að viðhalda stöðugleika.

Ég vil svo í lokin þakka góða samvinnu í nefndinni á milli umræðna.