145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[11:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Fyrst vil ég þakka fyrir gott samstarf við nefndina sem tók málið til umfjöllunar. Það er alveg augljóst að í þessu máli eru nokkur atriði sem hljóta að standa upp úr og mér finnst athyglisvert að hlusta á þessa umræðu um atkvæðagreiðsluna. Í fyrsta lagi erum við, já, að gera það sem talað var um, að fækka skattþrepum að nýju. Sú ákvörðun var tekin í tengslum við gerð kjarasamninga í vor og það er mikið fagnaðarefni vegna þess að við þetta mun skattbyrðin léttast og jaðarskattar allra upp að 700 þús. kr. munu lækka. Jaðarskattar eru allt of háir á Íslandi.

Tollar eru felldir niður. Þetta er risastórt tímamótaskref í tollamálum á Íslandi. Strax um áramótin verða tollar felldir niður af fötum og skóm og í nokkrum smáum öðrum vöruflokkum og síðan stígum við frekara skref eftir rúmt ár þegar allir aðrir tollar en þeir sem leggjast á matvæli verða aflagðir. (Forseti hringir.) Ég segi bara: Til hamingju, Íslendingar, með stóraukið viðskiptafrelsi sem þessu fylgir.

Varðandi skattalækkunina að lokum var aldrei tími, var það, til að lækka skatta í kreppunni og það er sama fólkið sem segir að nú sé ekki heldur [Kliður í þingsal.] rétti tíminn. Nú segja menn að það sé of mikið góðæri til að lækka skatta. [Háreysti í þingsal.]