145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[11:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er stundum sagt að ríkissjóður eigi fáa vini, (VigH: Hann á mig.) en oftast hefur maður treyst því að fjármálaráðherra væri sæmilega vinsamlegur ríkissjóði og hefði einhverjar áhyggjur fyrir hans hönd. Ég verð að segja að það fer hrollur um mig þegar ég heyri hæstv. fjármálaráðherra og varaformann fjárlaganefndar koma hingað og ráða ekki við sig af fögnuði yfir því hversu vel þeim gengur að lækka tekjur ríkisins í hverju málinu á fætur öðru. Og hver er útkoman? Hún er sú að þessi ríkisstjórn nær engum árangri í ríkisfjármálum þrjú ár í röð, hjakkar með reglulegan rekstur ríkissjóðs á núllinu þriðja árið í röð á næsta ári. Það er öll ábyrgðin sem sýnd er í þessum efnum. Ég verð að segja alveg eins og er að þegar nýfrjálshyggjudólgahugmyndafræðin ber heilbrigða skynsemi, raunsæi og samstöðu með ríkissjóði og velferðarsamfélaginu á Íslandi svona algerlega ofurliði er það sönnun þess að þessir hægri flokkar hafa ekkert lært. Þetta er sama hugmyndafræði (Forseti hringir.) og setti Ísland næstum því á hausinn árið 2008.