145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[11:20]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er greinilegt á orðræðu hæstv. fjármálaráðherra og varaformanns fjárlaganefndar að blöðkurnar eru aftur komnar fyrir augun á forustumönnum Sjálfstæðisflokksins og það er búið að setja hellu fyrir eyrun. Menn ætla ekkert að hlusta og ekkert að sjá. Það sem gagnrýni okkar lýtur að er tímasetning almennra tekjuskattslækkana. Þegar hæstv. fjármálaráðherra segir að einskiptishagnaður af álagningu hás skatts á banka vegna sögulega sérkennilegra aðstæðna réttlæti almennar skattalækkanir skilur maðurinn ekki af hverju við þurftum að hækka skatta í glímunni við hrunið. Það er vegna þess að það var búið að rýra alla tekjustofna (Gripið fram í.) ríkisins, það var búið að rústa þeim vegna þess að góðæristekjurnar höfðu blekkt mönnum sýn á hinn raunverulega rekstur ríkisins. Það voru ekki til peningar í sjóði eftir fjármálastjórn Sjálfstæðisflokksins til að lækka skatta eftir hrun (Forseti hringir.) eins og hefði þurft að vera hægt að gera. Það er það sem þarf að forðast en því miður stefnir þessi ríkisstjórn lóðbeint aftur í sömu vitleysuna. Hún (Forseti hringir.) skilur ekki agaða fjármálastjórn og hún skilur ekki að skattalækkanir á röngum tíma skaða samfélagið en skattalækkanir sem ala ekki á þenslu eins og til dæmis lækkun tryggingagjalds væri í dag (Forseti hringir.) eru skynsamlegar og réttar.