145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[11:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg hárrétt hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur að við ættum að vera málefnalegri í þessari umræðu. Ég lít svo á að hún hljóti að taka þetta mál upp á þingflokksfundi Vinstri grænna því að hæstv. fjármálaráðherra var að vitna beint í orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem notaði akkúrat þetta orðalag. Hæstv. ráðherra var að benda á fáránleika þess. Ég bíð spenntur eftir fréttum frá þingflokksfundi Vinstri grænna því að ég efast ekki um það eina stutta stund að þetta verði rætt á þeim vettvangi.

Virðulegi forseti. Ég ætla nú að biðja hv. þm. Guðmund Steingrímsson velvirðingar, ég held að þetta hafi verið bjartasta ræða sem ég hef heyrt hjá honum. Hann fagnaði vissulega þeim breytingum sem hér eru og það er mjög vel. Ég vil nota tækifærið og lýsa yfir mikilli ánægju með það en hvet menn til að hugsa aðeins þá hugsun til enda ef menn trúa því að lækkun skatta þýði alltaf lækkun tekna. Ég vil bara taka eitt mjög áberandi dæmi, (Forseti hringir.) þegar menn lækkuðu hér samræmda fjármagnstekjuskattinn og lækkuðu þar af leiðandi húsaleigu úr 40% í 10% og skoða hverju það skilaði — bara svo eitt dæmi sé tekið.