145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[11:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er mikið talað um vinstri og hægri og ákveðinn munnsöfnuður sem fylgir því eins og gengur og gerist á hinu háa Alþingi. Að mínu viti og okkar mati er þetta ekki einfaldlega spurning um hægri eða vinstri. Skattalækkanir og skattahækkanir eru flóknara dæmi en einfaldlega það hvort maður vilji skattalækkanir eða vilji aukin útgjöld. Þetta eru stærri spurningar en svo. Það þarf líka að taka mið af því hvernig hagkerfið er hverju sinni. Núna er þensla í hagkerfinu. Núna er slæmur tími til að lækka skatta. Ég mundi vilja hafa skatta eins og þeir eru þannig að þegar, og ég segi þegar, hagkerfið hægir á sér sé svigrúm til að lækka skatta.

Ég er hlynntur skattalækkunum en þetta er rangur tími og hér hefur margsinnis verið bent á að þegar ríkisfjármálin og stefna Seðlabankans eru ekki á sama plani getur stefnt í óefni. Mér fannst rétt að koma hingað og nefna það bara, það eru ekki allir einfaldlega vinstri sinnaðir eða einfaldlega hægri sinnaðir. Aðstæður skipta máli.