145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[11:32]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Nýfrjálshyggjustefna, hörð hægri stefna, í skattamálum náði hámarki á Íslandi á árunum fyrir hrun þegar fellt var niður í áföngum álag á hæstu tekjur, svonefndur hátekjuskattur, einmitt á tímum ofurlauna og ofurbónusa á Íslandi. Ójöfnuður á Íslandi fór ört vaxandi þessi ár eins og allar innlendar og alþjóðlegar mælingar sýna. Hér er verið að halda í sömu átt. Það er verið að leggja upp í þann leiðangur að fletja aftur út skattkerfið. Það er staðreynd. Það eru hin pólitísku vegamót sem við erum á. Þar fyrir utan hefur hæstv. fjármálaráðherra ekki meiri metnað en svo að hann er ánægður með að hjakka með afkomu ríkisins rétt við núllið þrjú ár í röð. Á sjötta ári hagvaxtar, á tímum uppsveiflu í hagkerfinu, nær þessi ríkisstjórn engum árangri í batnandi afkomu ríkisins.

Dólganýfrjálshyggja var það, dólganýfrjálshyggja er það og dólganýfrjálshyggja skal það heita.