145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[11:43]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér leggur minni hlutinn til að skerðingarmörk barnabóta hækki um 35% þannig að þær skerðist við 270 þús. kr. á einstæð foreldri en ekki 200 þús. kr. eins og nú er og að hjá hjónum og sambúðarfólki verði þessi mörk 540 þús. kr. en ekki 400 þús. kr. eins og nú er.

Það sem hefur gerst í fjárlagaumræðu og umræðu hér um ýmsar forsendur fjárlaga er að það er verið að breyta stefnu í málefnum barnabóta. Það er verið að miða barnabætur við lágtekjufólk fyrst og fremst en ekki allan skalann eins og verið hefur. Það er stefnubreyting sem við höfum ekki tekið nægjanlega pólitíska umræðu um og ég er ósammála henni.

Mér þykir leitt að sjá að meiri hluti þingmanna virðist vilja taka þessa stefnubreytingu án þess að nokkur pólitísk umræða hafi farið um hana en ég segi já við þessari tillögu.