145. löggjafarþing — 58. fundur,  18. des. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[11:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Misskilningurinn í umræðunni um þessi mál liggur meðal annars í því að það eru ekki hrein skattþrep í gildi á Íslandi vegna persónuafsláttarins. Við erum með óendanlega mörg skattþrep. Skattbyrðin er endalaust breytanleg eftir því hvernig laun eru hjá hverjum og einum. Hérna erum við að gera minni háttar breytingu. Við erum að rétta millitekjufólki í landinu hjálparhönd til að létta því skattbyrðina sem minnkar við það að miðjuþrepið hverfur, en vegna persónuafsláttarins erum við áfram með sama eðli í kerfinu.

Svo ættum við aldrei að taka umræðu um tekjuskattskerfin án þess að ræða bótakerfin á sama tíma og til dæmis hafa í huga að nettótekjur ríkissjóðs af tekjuskattskerfinu að teknu tilliti til bótakerfanna eru engar frá sjö fyrstu tekjutíundunum. Það eru einungis þeir 30% tekjuhæstu sem skila nettótekjum til ríkisins þegar við höfum tekið tillit til bótakerfanna.

Það er í raun og veru ómögulegt að eiga vitræna umræðu (Forseti hringir.) um tekjuskattskerfið án þess að horfa til þess hvernig persónuafslátturinn og um leið bótakerfin spila saman með þessu. (Gripið fram í.) Þetta er sannarlega góð breyting. (Gripið fram í.)